Erlent

Ringul­reið við flug­völlinn í Kabúl þar sem minnst tuttugu hafa látist

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölmargir Afganar biðu nærri Hamid Karzai alþjóðaflugvellinum í gær. 
Fjölmargir Afganar biðu nærri Hamid Karzai alþjóðaflugvellinum í gær.  Getty/Sayed Khodaiberdi Sadat

Sjö afganskir borgarar létust nýverið í troðningi við alþjóðaflugvöllinn í höfuðborginni Kabúl, að sögn breska hersins. Mikið öngþveiti og örvænting hefur ríkt þar síðustu daga eftir að Talibanar náðu völdum í landinu. Þúsundir keppast við að komast inn á flugvallarsvæðið og yfirgefa landið.

Sky News hefur eftir erindreka Atlantshafsbandalagsins að minnst tuttugu hafi látist á og við flugvöllinn síðustu sjö daga.

Í yfirlýsingu sem breska varnarmálaráðuneytið birti í morgun segir að aðstæður á svæðinu séu enn gífurlega erfiðar og reynt sé að hafa hemil á ástandinu.

Óljóst er hvort hinir látnu krömdust í troðningnum, köfnuðu eða fengu hjartaáfall en hermenn sáust leggja hvít klæði yfir líkin til að hylja þau. Aðrir hermenn stóðu ofan á farartálmum og flutningagámum þar sem þeir reyndu að koma ró á æstan lýðinn. Einnig heyrðust skothvellir að sögn AP-fréttaveitunnar.

Liðsmenn breska og bandaríska hersins eru með mikla viðveru á flugvellinum og vinna meðal annars að því að koma íbúum úr landi.Breska varnarmálaráðuneytið

Troðningur í 34 stiga hita

Á laugardag reyndu breskir og aðrir vestrænir hermenn í fullum herklæðum að hafa stjórn á mannfjöldanum. Sáust þeir meðal annars bera fölleitt fólk út úr mannþrönginni og sprauta vatni á mannþyrpinguna sem barðist við að koma sér inn á flugvöllinn í 34 stiga hita. Þá fékk fólk vatnsflöskur sem það notaði til að hella yfir sig, af því er fram kemur í frétt AP.

Nokkuð hefur verið um troðning og meiðsli nálægt flugvellinum seinustu daga, einkum þegar liðsmenn Talibana hafa skotið úr byssum sínum upp í loftið til að reyna að fæla örvæntingarfullt fólk frá því að reyna að flýja landið.

Áður hefur verið greint frá því að Afganar hafi látið lífið þegar þeir féllu af vöruflutningaflugvél bandaríska hersins við flugtak. Erfitt hefur reynst að henda reiður á umfang þeirra dauðsfalla og meiðsla sem hafa átt sér stað í ringulreiðinni við flugvöllinn.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum dánartölum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×