Fótbolti

Vålerenga vann Íslendingaslaginn og fer áfram í Meistaradeildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir, þriðja frá hægri í efri röð, var að vanda í byrjunarliði Vålerenga í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir, þriðja frá hægri í efri röð, var að vanda í byrjunarliði Vålerenga í dag. Twitter/@VIFDamer

Vålerenga frá Noregi vann 2-0 sigur á PAOK er liðin mættust á heimavelli síðarnefnda liðsins í Grikklandi í fyrstu umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta í dag. Íslendingar voru í byrjunarliðum beggja liða.

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir byrjaði að venju í vörn Vålerenga og þá var Ingunn Haraldsdóttir í vörn PAOK, en hún skipti til liðsins frá KR í sumar. Amanda Jacobsen Andradóttir var á varamannabekk norska liðsins og kom ekki við sögu í dag.

Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður þurfti að gera hlé á leiknum vegna úrhellisrigningar og þrumuveðurs. Dómari leiksins kallaði alla leikmenn til búningsherbergja hvar bíða þurfti í um hálftíma áður en leikurinn gat hafist að nýju.

Markalaust var í hléi en á 54. mínútu skoraði hin danska Janni Thomsen til að koma þeim norsku yfir. Elise Thorsnes innsiglaði svo 2-0 sigur norsku meistaranna með marki úr vítaspyrnu á 88. mínútu.

Vålerenga vann 2-0 og er liðið því komið áfram í 2. umferð forkeppninnar. Sigur þar dugar til sætis í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×