Viðskipti innlent

Ritstjóri og blaðamaður Markaðarins segja upp störfum

Eiður Þór Árnason skrifar
Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins.
Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins. Vísir

Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, hefur sagt upp störfum á viðskiptariti Fréttablaðsins og hyggst færa sig yfir á nýjan starfsvettvang. Hörður sagði upp um síðustu mánaðamót ásamt Þorsteini Friðriki Halldórssyni, blaðamanni á Markaðnum.

Þetta staðfestir Hörður í samtali við Vísi en segir að hvorugir þeirra séu á leið úr blaðamennsku.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá málinu og segist hafa heimildir fyrir því að kollegarnir stefni á stofnun nýs viðskiptamiðils. Aðspurður um þetta segist Hörður ekki ætla að tjá sig um þær sögusagnir að svo stöddu en að áform þeirra muni skýrast á næstu vikum. 

„Við ákváðum bara að breyta til og erum að fara á nýjan starfsvettvang.“

Tengist ekki ráðningu nýs ritstjóra

Hörður og Þorsteinn hyggjast starfa áfram hjá Torgi, útgáfufélagi Markaðarins og Fréttablaðsins, þar til eftirmenn þeirra hafa verið ráðnir. 

Stutt er síðan Þórður Gunnarsson, annar liðsmaður Markaðsins, hætti á miðlinum og réð sig í starf ótengt blaðamennsku. Þrír af fjórum blaðamönnum hafa því sagt upp störfum en eftir stendur Helgi Vífill Júlíusson.

Hörður segir að ákvörðun þeirra tengist ekki ráðningu Sigmundar Ernis Rúnarssonar en hann tók við sem aðalritstjóri Torgs í byrjun mánaðar. Hann hafi ekki vitað af breytingunum þegar hann tilkynnti uppsögn sína. Hörður bætir við að hann hafi átt í góðum samskiptum við yfirmenn sína sem hafi sýnt ákvörðuninni skilning. 

Hörður hefur verið ritstjóri Markaðarins frá árinu 2017. Þar á undan hafði hann ritstýrt viðskiptahluta DV í tvö ár og starfað á Viðskiptamogganum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×