Viðskipti innlent

Rektor HR tekur við starfi for­stjóra Awa­reGO

Atli Ísleifsson skrifar
Ari Kristinn Jónsson hafði starfað sem rektor Háskólans í Reykjavík frá ársbyrjun 2010.
Ari Kristinn Jónsson hafði starfað sem rektor Háskólans í Reykjavík frá ársbyrjun 2010. Vísir/Vilhelm

Ari Kristinn Jónsson, fráfarandi rektor Háskólans í Reykjavík, mun taka við starfi forstjóra netöryggisfyrirtækisins AwareGO um mánaðarmótin. Hann tekur við starfinu af Ragnari Sigurðssyni, einum stofnanda fyrirtækisins.

Markaðurinn greinir frá þessu í morgun, en fyrr í sumar var sagt frá því að Ari Kristinn myndi fara í leyfi frá störfum sínum sem rektor HR eftir að hafa gegnt stöðunni frá ársbyrjun 2010. Var þá tekið fram að hann myndi taka við stjórn nýsköpunarfyrirtækis.

Sagt er frá því í blaðinu í dag að AwareGO, sem meðal annars sé í eigu Eyris Invest, stefni á að sækja fjármagn til hraðs vaxtar á næstu árum. Sé vonast til að fjöldi viðskiptavina fyrirtækisins muni margfaldast á komandi árum.

AwareGO hefur verið starfandi frá 2007 og sérhæfir sig í gerð myndbanda og kennsluhugbúnaðar sem nýtist fyrirtækjum og stofnunum við að auka netöryggi með þjálfun starfsfólks.

Starfsmenn AwareGo eru um þrjátíu talsins, en í hópi viðskiptavina eru meðal annars Credit Suisse, Barclays, Gener­al Electric, Mondelez Inc og Nethope.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×