Fótbolti

Ein sú besta í sögunni leggur skóna á hilluna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Carli Lloyd hefur átt frábæran feril.
Carli Lloyd hefur átt frábæran feril. Mynd/Nordic Photos/Getty

Bandaríska fótboltakonan Carli Lloyd mun senn leika sinn síðasta fótboltaleik á ferlinum. Lloyd tilkynnti í dag að hún myndi leggja skónna á hilluna í haust.

Lloyd er 39 ára gömul og hefur verið á meðal bestu knattspyrnukvenna heims síðustu ár. Hún var valin besti leikmaður heims 2015 og 2016 og var önnur í valinu 2017.

Lloyd hefur nánast allan sinn feril leikið í heimalandinu, að undanskildu árinu 2017 þegar hún fór á lán til Manchester City á Englandi og vann með liðinu ensku bikarkeppnina. Það eru hennar einu verðlaun með félagsliði á ferlinum en hún hefur hlotið fjölmörg með bandaríska landsliðinu.

Landsliðsferill Lloyd spannar 17 ár þar sem hún hefur fengið tvær gullmedalíur á HM (2015 og 2019) og eitt silfur (2011), tvö Ólympíugull  (2008 og 2012) og brons á leikunum í Tókýó í ár.

Lloyd mun klára yfirstandandi tímabil með New Jersey/New York Gotham í bandarísku ofurdeildinni sem klárast í október og leika sína síðustu leiki með bandaríska landsliðinu í haust. Bandaríkin eiga tvo leiki í september og tvo í október.

Alls hefur Lloyd leikið 312 landsleiki fyrir Bandaríkin og skorað í þeim 128 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×