Erlent

Vitað um einn Ís­lending enn í Afgan­istan

Atli Ísleifsson skrifar
Vestræn ríki hafa síðustu daga reynt að forða borgurum sínum frá landinu eftir að hver borgin á fætur annarri hefur fallið í hendur talibana.
Vestræn ríki hafa síðustu daga reynt að forða borgurum sínum frá landinu eftir að hver borgin á fætur annarri hefur fallið í hendur talibana. AP

Utanríkisráðuneytið þekkir til eins Íslendings sem sé enn staddur í Afganistan. Vonir séu bundnar við að hann komist fljótlega út landi.

Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við Vísi. Sveinn segir að um sé að ræða starfsmann NSPA (e. NATO Support and Procurement Agency), einnar undirstofnunar Atlantshafsbandalagsins NATO.

Sveinn segir að Íslendingurinn sé staddur í Kabúl. „Við erum í góðum samskiptum við hann og við fylgjumst vel með. Sem starfsmaður NATO er hann talinn öruggur.“

Vestræn ríki hafa síðustu daga reynt að forða borgurum sínum frá landinu eftir að hver borgin á fætur annarri hefur fallið í hendur talibana.

Talibanar tóku höfuðborgina Kabúl í gær fljótlega eftir að Ashraf Ghani, forseti landsins, flúði land. Íslömsku öfgamennirnir hafa náð nær öllum völdum í landinu á innan við viku, á sama tíma og bandarískt og alþjóðlegt herlið hefur verið að kalla lið sitt frá landinu.

Sveinn segir að fyrir um tveimur árum hafi alla jafna tveir til þrír Íslendingar í Afganistan sem störfuðu á vegum NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×