Sport

Keppti í frægum buxum afa síns í fyrsta bardaganum sínum og vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nico Ali Walsh fagnar sigri með því að taka í hönd móður sinnar Rashedu Ali Walsh.
Nico Ali Walsh fagnar sigri með því að taka í hönd móður sinnar Rashedu Ali Walsh. AP/Brett Rojo

Nico Ali Walsh hóf hnefaleikferilinn sinn með sigri um helgina en áhuginn á þessum nýliða var kannski meiri en á flestum þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í hringnum.

Nico Ali Walsh er 21 árs gamall en hann er afabarn goðsagnarinnar Muhammad Ali og sonur Roberts Walsh og Rashedu Ali Walsh.

Walsh tryggði sér sigurinn á Jordan Weeks um miðja fyrstu lotu þegar dómararnir stoppuðu bardagann og færðu honum sigurinn á tæknilegu rothöggi. Bardaginn fór fram í Oklahoma.

Ali Walsh sagði frá þvi eftir bardagann að hann hafi klæðst frægum buxum afa síns frá því að Muhammad Ali (áður Cassius Clay) vann heimsmeistaratitilinn á sjöunda áratugnum.

„Ég er búinn að hugsa svo mikið til afa míns. Ég sakna hans. Þetta hefur verið tilfinningarússíbani,“ sagði Ali Walsh við ESPN.

„Ég held að ég og hann hafi skrifað saman smá sögu í kvöld. Þetta var alveg eftir mínum væntingum,“ sagði Ali Walsh. Muhammad Ali lést í júní 2016. Hann var ein stærsta íþróttastjarna síðustu aldar og margfaldur heimsmeistari í hnefaleikum.

„Það ætti að setja mikla pressu á mig en þetta var bara af minn. Hann er besti bardagakappi allra tíma og kannski besta persónan líka,“ sagði Ali og kom síðan með yfirlýsingu:

„Ég mun aldrei aftur keppa í þessum buxum aftur,“ sagði Ali Walsh.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×