Innlent

Gylfi Þór verður áfram laus gegn tryggingu

Árni Sæberg skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson verður laus gegn tryggingu til 16. október.
Gylfi Þór Sigurðsson verður laus gegn tryggingu til 16. október. EPA-EFE/Peter Powel

Gylfi Þór Sigurðsson hefur gengið laus gegn tryggingu allt frá því að hann var handtekinn í síðasta mánuði. Ákveðið hefur verið að sama fyrirkomulag muni gilda til 16. október.

Gylfi Þór var handtekinn föstudaginn 16. júlí síðastliðinn vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart ólögráða stúlku. Samkvæmt frétt Sky um málið var hann látinn laus gegn tryggingu skömmu eftir handtöku.

Sky nafngreinir Gylfa Þór ekki enda segjast breskir fjölmiðlar ekki geta nafngreint grunaða menn af lagalegum ástæðum.

Everton, lið Gylfa Þórs, hefur gefið út að hann muni ekki spila fyrir félagið á meðan á rannsókn lögreglu stendur. Gylfi mun því að öllum líkindum ekki spila í ensku úrvalsdeildinni fyrr en 16. október hið fyrsta.

Þá hefur Everton gefið út að félagið muni aðstoða lögreglu við rannsókn málsins en ekki tjá sig frekar um málið.

Fólk hugsi sig um áður en það tjáir sig 

Ríkissaksóknari Bretlands hefur varað fólk við því að tjá sig um dómsmál á netinu og segir að það geti leitt til þess að málaferli spillist. „Allir eru saklausir uns sekt er sönnuð og allir eiga rétt á sanngjörnum réttarhöldum,“ segir saksóknarinn og þingmaðurinn Michael Ellis.

Hann segir jafnframt að fólk geti lent í því að fá dóm fyrir vanvirðingu við dómstóla ef það tjáir sig opinberlega um dómsmál og að embætti ríkissaksóknara rannsaki allar ábendingar um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×