Fótbolti

Blikar flugu í sérmerktri einkaflugvél til Skotlands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá allan hópinn fyrir  framan flugvélina sem flutti Blikana til Skotlands.
Hér má sjá allan hópinn fyrir  framan flugvélina sem flutti Blikana til Skotlands. Blikar.is

Breiðablik mætir skoska liðinu Abredeen annað kvöld í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar. Aberdeen vann fyrri leikinn 3-2 á Íslandi en Blikar sýndu þá að þeir eru ekki slakara liðið.

Blikar fengu á sig tvö mörk í byrjun leiks en tókst að jafna fyrir hálfleik. Skotarnir tryggðu sér sigurinn með marki snemma í seinni hálfleiknum en eftir leik talaði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, um að skoska liðið hafði komið sé á óvart með því að vera svona lélegt.

Það breytti ekki því að Blikar eru einu marki undir og þurfa nú að vinna það upp á erfiðum útivelli.

Það er nóg að gera hjá Blikunum enda voru þeir að spila við Stjörnuna í Pepsi Max deildinni á mánudagskvöldið.

Flugið til Skotlands var hins vegar með þægilegra móti því Blikarnir tóku flugvél á leigu og flugu í sérmerktri einkaflugvél til Skotlands.

Flugvélin heitir Auður djúpúðga og er Bombardier DHC-8-400 leiguflugvél frá Icelandair.

Flugvélin var líka með Blikamerkið á hliðinni og því var enginn vafi á því hverjir væru þar á ferð.

Allur hópurinn tók mynd af sér fyrir utan vélina eins og sjá má hér fyrir ofan.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 18.35 en flautað er til leiks klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×