Fótbolti

Fjöldi fólks beið eftir Messi við flugvöllinn í París

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fjöldi manns safnaðist saman fyrir utan Charles De Gaulle-flugvöllinn í París í dag.
Fjöldi manns safnaðist saman fyrir utan Charles De Gaulle-flugvöllinn í París í dag. Skjáskot

Hundruðir aðdáenda hafa safnast saman fyrir utan Charles De Gaulle-flugvöllinn í París og bíða þeir þar komu argentínsku fótboltastjörnunnar Lionels Messi. Ekki er þó víst að hann komi til frönsku höfuðborgarinnar í dag.

Messi hefur yfirgefið spænska stórveldið Barcelona eftir 21 ár hjá félaginu en hann stóð fyrir blaðamannafundi í höfuðstöðvum félagsins í gær þar sem hann kvaddi félagið. Vegna fjárhagsreglna spænsku úrvalsdeildarinnar, La Liga, og bágrar fjárhagsstöðu Börsunga, var frekara samstarf við Messi ekki mögulegt.

Franskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að Paris Saint-Germain muni fá Messi í sínar raðir og búist var við því að skiptin yrðu jafnvel kláruð strax í dag.

Orðrómar virðast hafa farið á kreik þess efnis að Messi væri væntanlegur til Parísar í morgun. Mikil spenna myndaðist þar sem hundruðir manna söfnuðust fyrir utan Charles De Gaulle-flugvöllinn og biðu komu hans. Aldrei kom Messi þó.

Messi fór aldrei frá Barcelona í dag og myndir hafa náðst af honum við heimili sitt í borginni þar sem ekki virtist mikill ferðahugur á þeim argentínska. Þónokkrir blaðamenn hafa greint frá því í dag að Messi muni ekki flýta sér að ganga frá samningi við Parísarliðið og fari ekki til borgarinnar fyrr en samningsmálin hafa verið kláruð.


Tengdar fréttir

„Barça verður aldrei samt án þín“

Spánverjinn Cesc Fabregas, sem leikur með Mónakó í Frakklandi, sendi Lionel Messi hjartnæma kveðju á samfélagsmiðlinum Twitter. Fabregas er jafnaldri Messi og æfði með honum sem unglingur áður en þeir spiluðu saman fyrir aðallið Barcelona síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×