Fótbolti

Hljóp inn á til að húð­skamma Carrasco og lét dómara leiksins fá það óþvegið í leikslok

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diego Simeone er engum líkur.
Diego Simeone er engum líkur. Rico Brouwer/Getty Images

Diego Simeone, þjálfari Spánarmeistara Atlético Madríd, verður seint talinn rólegur í skapinu. Hann missti stjórn á skapi sínu er lið hans tapaði 2-1 gegn Feyenoord frá Hollandi um helgina. 

Simeone lét hinn 27 ára gamla Yannick Carrasco heyra það eftir að hann fékk einkar heimskulegt rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Þá fengu dómararnir einnig sinn skerf af fúkyrðum að leik loknum.

Spánarmeistarar Atlético voru 1-0 undir gegn Feyenoord er Carrasco fékk að líta rauða spjaldið fyrir að sparka í Tyrell Malacia eftir að þeim lenti saman. Er Malacia lá á vellinum ákvað Carrasco að beygja sig yfir hann og láta nokkur vel valin orð falla.

Í kjölfarið sauð allt upp úr og leikmenn hópuðust saman í klassískum „haltu mér, slepptu mér,“ kíting sem sést aðeins á knattspyrnuvöllum. Þar tókst Carrasco að lenda upp á kant við Orkun Kökçü sem var mættur til að verja liðsfélaga sinn sem lá óvígur eftir í grasinu. 

Jan Oblak, markvörður Atlético, reyndi að hafa vit fyrir Carrasco en hafði ekki erindi sem erfiði. Þá kom Simeone skokkandi inn á völlinn og sagði leikmanni sínum til syndanna. Myndbönd af því sem fram fór má sjá hér að neðan.

Feyenoord vann leikinn 2-1 þökk sé sigurmarki Naoufal Bannis þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Að leik loknum ku Simeone – sem var greinilega enn heitt í hamsi – hafa látið dómarana heyra það. 

Af hverju er ekki víst að svo stöddu en það er ljóst að Simeone finnst ekki gaman að tapa, sama þó aðeins sé um vináttuleik að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×