Innlent

Hundurinn Mosi starfar á Kleppi og knúsar skjól­stæðinga

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hundurinn Mosi er geðhjúkrunarhundur.
Hundurinn Mosi er geðhjúkrunarhundur. stöð2

Hundurinn Mosi sem er starfsmaður á Kleppi. Hann sinnir móttöku nýrra skjólstæðinga og er til staðar fyrir þá sem þurfa á knúsi að halda.

„Hér höfum við hundinn Mosa. Hann er einungis tvö kíló og í 20% starfshlutfalli á dagdeild geðmeðferðar hér á Kleppi. Og svo er hann hrikalega sætur.“

„Hann er alveg ótrúlega mikilvægur í deildarstarfinu, hann er móttökustjóri. Tekur á móti fólki og svo er hann aðallega í knúsi,“ sagði Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman, aðstoðardeildarstjóri á dagdeild geðmeðferðar á Kleppi og eigandi Mosa.

Starfsmannaskírteini Mosa.aðsend

Starfsskyldur Mosa eru einfaldar en af og til mætir hann með starfsmönnum í viðtöl með skjólstæðingum. Þegar Mosi mætir til vinnu er hann alla jafna með þetta fína starfsmannaskírteini sem sést á myndinni að ofan, en daginn sem fréttastofu bar að garði gleymdi hann skírteininu heima. Það getur nú komið fyrir alla. En Mosi mætir til vinnu tvo til þrjá daga á viku og gerir gagn.

„Já Mosi hjálpar skjólstæðingum og það höfum við líka staðfest í rannsóknum sem hafa verið gerðar á þátttöku hunda í meðferðarstarfi.“

Hundaknús á stundatöflunni

Mosi er ekki eini ferfætti starfsmaður Klepps. Það vill svo til að nokkrir iðjuþjálfar deildarinnar eru hundaeigendur og taka þá stundum með í vinnuna.

„Þannig að það er mikil hundastemning á lóðinni. Meira segja hér í batamiðstöðinni þar sem virkniprógrammið okkar er, í stundatöflu þar er liður sem heitir hundaknús og þá er hægt að koma og fá knús og klapp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×