Sport

Yngsti verðlaunahafi Breta á ÓL heppin að vera á lífi eftir brettaslys í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sky Brown með bronsmedalíuna sína.
Sky Brown með bronsmedalíuna sína. getty/Jean Catuffe

Sky Brown sem varð yngsti verðlaunahafi Bretlands á Ólympíuleikunum í gær var hætt komin eftir slys sem hún lenti í á síðasta ári.

Brown lenti í 3. sæti í hjólabrettakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó í gær. Hún er nýorðin þrettán ára og er yngsti verðlaunahafi Bretlands í sögu Ólympíuleikanna.

Brown hefði tæplega keppt á Ólympíuleikunum ef þeir hefðu farið fram í fyrra eins og áætlað var. Hún lenti nefnilega í alvarlegu slysi á æfingu í maí á síðasta ári.

Faðir Browns sagði að hún væri heppin að vera á lífi eftir slysið. Hún höfuðkúpubrotnaði, braut aðra höndina og úlnlið og hjarta og lungu hennar sködduðust.

Brown lét þetta ekki á sig fá og lofaði að keppa að keppa á Ólympíuleikunum og vinna til gullverðlauna. Hún komst vissulega til Tókýó en varð að gera sér bronsið að góðu. Sakura Yosozumi frá Japan vann gullið.

Brown er ýmislegt til lista lagt.getty/Jean Catuffe

Brown er stórhuga og ætlar sér að keppa í tveimur greinum á Ólympíuleikunum í París eftir þrjú ár. Hún fer á brimbretti flesta daga áður en hún fer í skólann og ætlar að keppa í þeirri grein í París.

Faðir Browns tókst að tala dóttur sína af því að keppa í tveimur greinum í Tókýó en óvíst er hvort það takist aftur. Það gæti þó reynst þrautinni þyngri fyrir Brown að keppa í báðum greinunum því brimbrettakeppnin fer fram á Tahítí sem er rúmlega sextán þúsund kílómetra frá París.

Brown er ekki bara mikil íþróttakona heldur hefur hún gaman að því að syngja og dansa og vann meðal annars sigur í barnaútgáfu raunveruleikaþáttarins Dancing with the Stars fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×