Erlent

Geimskoti Starliner frestað þrisvar sinnum á einni viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Starliner á toppi Atlas-V geimflaugar í Flórída í nótt.
Starliner á toppi Atlas-V geimflaugar í Flórída í nótt. AP/Joel Kowsky

Geimskoti geimfars Boeing, Starliner, hefur verið frestað enn eina ferðina og það þrisvar sinnum á einni viku. Geimskotinu var frestað í gær þegar ákveðinn galli kom upp og stóð til að gera aðra tilraun í dag. Í nótt var einnig hætt við hana og Starliner fjarlægt af skotpalli.

Einnig stóð til að skjóta geimfarinu til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í síðustu viku en hætt var við það eftir að hreyflar nýrrar rússneskrar einingar sem tengd var við geimstöðina fóru óvænt í gang og sneru henni á hvolf.

Sjá einnig: Hreyflar nýrrar einingar fóru óvænt í gang og færðu geimstöðina af réttri sporbraut

Allra fyrst átti þó að skjóta Starliner til geimstöðvarinnar í desember 2019. Því var skotið á loft en geimfarið komst aldrei á rétta sporbraut. Var það vegna þess að innri klukka geimfarsins var ekki í samræmi við klukku Atlas V-eldflaugarinnar sem notuð var til að skjóta Starliner á loft.

Sjá einnig: Boeing lenti geimfari sem hlekktist á

Í tilkynningu frá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) sem birt var í nótt segir að hætt hafi verið við geimskotið í gær eftir að loki í eldsneytiskerfi Starliner lokaðist ekki. Í nótt varð svo ljóst að ekki væri hægt að laga gallann auðveldlega og var geimfarið og Atlas-V eldflaugin sem átti að bera geimfarið fjarlægt af skotpalli.

Ekki liggur fyrir hvenær næst verður reynt að skjóta Starliner til geimstöðvarinnar.

Boeing segir gallann ekki tengjast hugbúnaði og verkfræðinar fyrirtækisins þurfti tíma til að tryggja örggi og velgengni geimskotsins.

Bæði Boeing og SpaceX hafa unnið að því að byggja upp getu til að senda menn frá Bandaríkjunum út í geim. SpaceX skaut fyrsta geimfari sínu, Dragon, til geimstöðvarinnar árið 2019 og hefur síðan þá skotið tveimur hópum geimfara til geimstöðvarinnar.


Tengdar fréttir

Geimskot Bezos og félaga heppnaðist fullkomlega

Jeff Bezos, ríkasti maður heims, ferðaðist út fyrir gufuhvolf jarðarinnar á eigin geimflaug í dag. Hann var annar auðjöfurinn til að skjóta sjálfum sér á loft á nokkrum dögum.

Vilja skjóta 23 eldflaugum á smástirni

Kínverskir vísindamenn vilja senda 23 Long March 5 eldflaugar, þær öflugustu sem framleiddar eru í Kína, til að kanna hvort hægt sé að nota þær til að breyta stefnu smástirna. Markmið vísindamannanna er að komast að því hvort hægt væri að bjarga jörðinni með þessum hætti, ef smástirni stefndi á plánetuna okkar.

Bestu myndir af Ganýmedes í áratugi

Myndir sem bandaríska geimfarið Juno tók af Ganýmedes, stærsta tungli Júpíters, og bárust til jarðar í vikunni eru þær skýrustu í áratugi. Geimfarið flaug þá nær tunglinu en nokkuð annað geimfar hefur gert frá því á síðustu öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×