Innlent

Ein­stak­lega ró­leg byrjun á helginni: „Hér er allt eins og blómstrið eina“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá tjaldsvæðinu á Ísafirði. Fólkið hér er ekki til mikilla vandræða.
Frá tjaldsvæðinu á Ísafirði. Fólkið hér er ekki til mikilla vandræða. vísir/vilhelm

Fólk á ferð um landið skemmti sér fal­lega í nótt, alla­vega í þeim lög­reglu­em­bættum sem Vísir náði tali af nú í morguns­árið. Þetta virðist ætla að vera ró­leg verslunar­manna­helgi í tvö hundruð manna sam­komu­banni, lög­reglu­mönnum til ein­stakrar á­nægju.

Hafa litlar á­hyggjur af göngu­há­tíð

„Þetta hefur gengið allt ljómandi vel, hér er bara allt eins og blómstrið eina!“ segir vakt­stjóri hjá lög­reglunni á Vest­fjörðum í sam­tali við Vísi.

Hann segir ekki svo marga hafa safnast saman í Ísa­fjarðar­bæ, alla­vega ef miðað er við verslunar­manna­helgi í venju­legu ár­ferði, þó nokkuð mikið af fólki sé reyndar komið á tjald­svæðið. „En það virðist ekki vera fólk sem er að skapa okkur neina at­vinnu,“ segir hann léttur í bragði.

Allt leikur í lyndi á Ísafirði þessa dagana.vísir/vilhelm

Öllum há­tíðum var af­lýst á Vest­fjörðum um helgina nema einni; göngu­há­tíð á Súða­vík. „Hún snýst aðal­lega um göngu­ferðir og fjall­göngur og svo­leiðis. Þannig ætli það sé ekki ein­hver heil­næmasta há­tíð sem hægt er að hugsa sér. Við höfum litlar á­hyggjur af henni. Við erum bara mjög sáttir.“

Veðrið á Ísafirði og öllum Vestfjörðum er með eindæmum gott í dag.

Eyja­menn með lóða­partý

Um verslunar­manna­helgi safnast ef­laust flestir saman á Þjóð­há­tíð í Vest­manna­eyjum. Henni var frestað í ár vegna sam­komu­tak­markana en Eyja­menn láta það ekki of mikið á sig fá. Varð­stjóri hjá lög­reglunni í Eyjum segir að stemmningin í gær­kvöldi hafi svipað mjög til þeirrar sem myndast við upp­haf Þjóð­há­tíðar.

„Þær fjöl­skyldur sem hafa verið með tjöld á Þjóð­há­tíð höfðu sett þau upp í görðunum hjá sér og það voru svona lóða­partý hér og þar um bæinn,“ segir hann.

Hann telur að um þúsund manns hafi mætt til Eyja um helgina þrátt fyrir að Þjóð­há­tíð hafi verið frestað.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upprunalega stóð að tíu þúsund manns hefðu mætt til Eyja um helgina en þar hafði misskilnings gætt milli blaðamanns og lögreglu. Rétt er að um þúsund manns hafi komið til Eyja fyrir helgina.

Svona mun brekkan ekki líta út í ár. Þær fjölskyldur sem hafa haldið hvítu tjöldunum úti á Þjóðhátíð virðast hafa fært partýið heim í garða sína. Vísir

„Það voru margir hérna í gær. Þegar setningin átti að vera þá komu fjöl­skyldur saman með börnin og þau voru í tjöldunum með allt dótið, veislu­hlað­borð og kökur. Þau gerðu þetta bara næstum því eins og hefði orðið í dalnum, voru búin að fá ein­hvern sem hélt há­tíðar­ræðuna þannig þetta var bara skemmti­legt.“

Hann segir lög­regluna þó ekki hafa þurft að skipta sér mikið af há­tíðar­höldunum. Fanga­geymslan var tóm í morguns­árið.

Erfitt að komast að á Akur­eyri

Og sömu sögu er að segja af Akur­eyri. Engar hand­tökur í gær­kvöldi og engin stór mál sem komu upp.

„Það er alveg slatti hérna í bænum en það var svo bara allt búið rétt upp úr mið­nætti þegar allir staðir lokuðu,“ segir varð­stjóri lög­reglunnar á Akur­eyri.

Mikilli sól er spáð á Akureyri um helgina.Vísir/Vilhelm

Hann segir að eitt­hvað hafi verið um að fólk fengi ekki pláss á tjald­svæðunum:

„Tjald­svæðin voru orðin full hérna. Það þarf nú svo sem ekki mikið til, það tekur ekki nema 800 hérna og svo komast 200 í Þórunnar­stræti. Það var nú eitt­hvað um að fólk væri að koma svona upp undir mið­nætti og ætlaði þá að komast á tjald­svæðin sem voru orðin full. Því var bara vísað frá og hafa vonandi náð að redda sér ein­hvern veginn.“

Einn sóttvarnalagabrjótur til vandræða

Í miðbæ Reykjavíkur virðist allt hafa gengið eðlilega fyrir sig í gærkvöldi. Samkvæmt daglegri fréttatilkynningu lögreglunnar virðist lögregla ekki þurft að hafa afskipta af neinum nema einum sem strauk af farsóttahúsi.

Hann átti að dvelja þar, annað­hvort í sótt­kví eða ein­angrun, en hafði gengið þaðan út í öl­æði. Lög­regla hand­tók hann vegna á­stands hans og varð maðurinn að gista fanga­geymslu í nótt.

Það náðist svo hvorki í lög­regluna á Suður­landi né lög­regluna á Austur­landi við gerð fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×