Íslenski boltinn

Þurfti ekki að fara í lögfræðina og átti stórleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristall Máni Ingason var einn besti leikmaður Víkings í sigrinum á Stjörnunni.
Kristall Máni Ingason var einn besti leikmaður Víkings í sigrinum á Stjörnunni. vísir/bára

Víkingurinn Kristall Máni Ingason lék afar vel í sigrinum á Stjörnunni og fékk mikið hrós fyrir frammistöðu sína í Pepsi Max Stúkunni.

Kristall lagði upp fyrsta mark Víkings í 3-2 sigrinum á Stjörnunni í gær og var mjög líflegur í leiknum.

„Hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu en í þessum leik var hann allt í öllu, sérstaklega framan af. Hann vann stöður einn á einn, var með fínar sendingar, átti aukaspyrnuna á kollinn [Nikolaj] Hansen og það var virkilega gaman að fylgjast með honum,“ sagði Reynir Leósson í Pepsi Max Stúkunni.

Klippa: Pepsi Max Stúkan - umræða um Kristal Mána

„Ég held að hann sé ótrúlegur glaður að hann sé að spila fótbolta því hann var búinn að hóta því á samfélagsmiðlum að fara að læra lögfræði ef þetta tímabil yrði flautað af. Hann væri kominn með svo mikið ógeð á þessu,“ sagði Þorkell Máni Pétursson.

Máni segir nauðsynlegt fyrir yngri leikmenn Víkings eins og Kristal að sýna þolinmæði.

„Þú verður að skoða það að þegar þjálfari er með sigurlið sem er að vinna er erfitt að gera mikið af breytingum á liðinu,“ sagði Máni. 

„Það er eðlilegt að þú sért mjög pirraður og þú átt rétt á því að vera brjálaður og pirraður ungur leikmaður ef það gengur hræðilega illa hjá liðinu og þú færð ekki nein tækifæri. En ef liðið þitt mætir í hverri einustu viku og vinnur situr þú bara á bekknum og ert með í partíinu.“


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×