Sport

Skráðu of marga keppendur til leiks á ÓL og þurftu að senda sex heim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alicja Tchorz fær ekki tækifæri til að keppa á sínum þriðju Ólympíuleikum vegna klaufalegra mistaka pólska sundsambandsins.
Alicja Tchorz fær ekki tækifæri til að keppa á sínum þriðju Ólympíuleikum vegna klaufalegra mistaka pólska sundsambandsins. getty/Lukasz Laskowski

Sex pólskir sundmenn fóru í fýluferð til Tókýó vegna mistaka pólska sundsambandsins sem skráði of marga keppendur til leiks á Ólympíuleikunum.

Alicja Tchórz, Bartosz Piszczorowicz, Aleksandra Polanska, Mateusz Chowaniec, Dominika Kossakowska og Jan Holub voru komin til Tókýó þegar þeim var tjáð þau gætu ekki keppt á Ólympíuleikunum. Sexmenningarnir komu aftur heim til Póllands á sunnudaginn.

Pólska sundsambandið skráði 23 keppendur til leiks á Ólympíuleikana en mátti aðeins skrá sautján. Áðurnefndu sundkapparnir þurftu því að bíta í það súra epli að geta ekki keppt á Ólympíuleikunum.

Sexmenningarnir voru skiljanlega ekki sáttir og Tchórz sendi pólska sundsambandinu tóninn.

„Ímyndaðu þér að helga fimm ár ævinnar því að komast aftur á stærsta svið íþróttanna, á kostnað vinnu og einkalífs, og síðan er þetta algjört klúður,“ sagði Tchórz sem keppti á Ólympíuleikunum 2012 og 2016.

Pawel Slominski, formaður pólska sundsambandsins, bað sexmenningana afsökunar og sagðist skilja reiði þeirra. Kallað hefur verið eftir afsögn hans og sexmenningarnir íhuga að fara í mál við sundsambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×