Íslenski boltinn

Heimir: Höfðum engan áhuga á að spila fótbolta og hvað þá að berjast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimi Guðjónssyni var ekki skemmt eftir leikinn á Akranesi í dag.
Heimi Guðjónssyni var ekki skemmt eftir leikinn á Akranesi í dag. vísir/bára

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var ómyrkur í máli eftir tap Íslandsmeistaranna á Akranesi í dag.

„Ég vil óska Skagamönnum til hamingju með sigurinn. Þeir voru miklu betri en við og leikurinn var vel uppsettur hjá Jóa Kalla. Við höfðum engan áhuga á að koma hingað og spila fótbolta og hvað þá að berjast,“ sagði Heimir við íþróttadeild eftir leik.

En af hverju voru hans menn ekki tilbúnir í leikinn?

„Það er góð spurning. Ég þarf að finna út úr því. Ég var búinn að tala um það fyrir leikinn að allir vita að þegar þú kemur hingað upp á Akranes og ert ekki með grunnatriðin á hreinu lendirðu í vandræðum. Og þau voru ekki á hreinu hjá okkur. Við kláruðum aldrei varnarleikinn sem lið og menn voru alltaf að hugsa um að komast í sókn,“ sagði Heimir.

„Í fyrri hálfleik var sóknin svo eitthvað smá spil, fimm metra sendingar, og við áttum ekkert skilið.“

Fram að þreföldu skiptingunni sem Heimir gerði eftir klukkutíma var ekki sjón að sjá Valsliðið.

„Við urðum okkur sjálfum og félaginu til skammar hérna í dag,“ sagði Heimir sem vildi ekki meina að leikurinn gegn Dinamo Zagreb fyrr í vikunni hefði haft einhver áhrif.

Evrópuleikurinn var á þriðjudaginn. Núna er laugardagur. Það er nógur tími til að hvíla sig. Við vorum bara aldrei klárir í þennan leik. Við litum bara á hann sem einhvern æfingaleik á undirbúningstímabili,“ sagði Heimir að lokum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×