Fótbolti

Esb­jerg kært til vinnu­mála­eftir­litsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Peter Hyballa þjálfari Esbjerg heldur áfram að gera allt brjálað.
Peter Hyballa þjálfari Esbjerg heldur áfram að gera allt brjálað. Esbjerg

Íslendingaliðið Esbjerg hefur verið kært til vinnumálaeftirlits Danmerkur af leikmannasamtökum þar í landi.

Aðeins nokkrir dagar eru í að tímabilið í Danmörku fari af stað. Ísak Óli Ólafsson og Andri Rúnar Bjarnason eru tilbúnir í komandi tímabil í B-deildinni þar í landi en allt leikur þó á reiðiskjálfi hjá félaginu.

Ólafur Kristjánsson var látinn fara frá félaginu skömmu fyrir lok síðasta tímabils og tók Þjóðverjinn Peter Hyballa við í sumar. Hann hefur verið harkalega gagnrýndur fyrir hegðun sína.

Nýjustu fréttirnar eru þær að Hyballa hafi bannað fjórum leikmönnum að æfa með aðalliði félagsins. Upphaflega áttu þeir að æfa einir síns liðs en á endanum fengu þeir leyfi til að æfa með U-19 ára liði Esbjerg.

Leikmannasamtökin eru verulega ósátt með framgöngu Hyballa og hafa því kært Esbjerg til vinnumálaeftirlitsins þar sem leikmennirnir fá ekki að sinna vinnu sinni. Leikmennirnir sem um er ræðir eru þeir Jakob Ankersen, Kevin Conboy, Yuri Yakovenko og Zean Dalügge.

Danska B-deildin fer af stað þann 25. júlí en þá kemur í ljós hvort leikmenn liðsins séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum fyrir þjálfara sem urðar yfir þá við hvert tækifæri.

Bold greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×