Erlent

Tugir handteknir, slasaðir lögreglumenn og rasísku níði rignir

Kolbeinn Tumi Daðason og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Kona leitar aðstoðar eftir að hafa slasast á götum Lundúna í gær.
Kona leitar aðstoðar eftir að hafa slasast á götum Lundúna í gær. Getty/Martin Pope

Rasískum skilaboðum hefur ringt yfir þá þrjá ensku landsliðsmenn í knattspyrnu sem brenndu af vítaspyrnum sínum í úrslitaleik EM karla í gærkvöldi. Forsætisráðherra Bretlands fordæmir hatursorðræðuna en sætir sjálfur gagnrýni. Nítján lögreglumenn slösuðust í átökum við fótboltabullur og voru 49 handteknir. 

Reyndur blaðamaður telur vankanta á Wembley í gær hafa minnkað möguleikana verulega á að heimsmeistarakeppnin í fótbolta 2030 fari fram á Englandi.

Skemmdarverk unnin á veggmynd af Rashford

Þeir Bukayo Saka, Marcus Rashford og Jadon Sancho skoruðu ekki úr spyrnum sínum í vítaspyrnukeppninni þegar Englendingar töpuðu gegn Ítölum í gærkvöldi. 

Leikmennirnir þrír eru allir svartir og ítalska landsliðið var varla byrjað að fagna sigrinum þegar rasísk skilaboð voru farin að hrannast upp á samfélagsmiðlareikningum Englendinganna þriggja. 

Spellvirki voru sömuleiðis unnin á veggmynd af Rashford í Manchester-borg. Veggmynd sem reist var til heiðurs Rashford sem hefur farið mikinn í umræðu um matarskort hjá börnum á Englandi.

Skiptingin undir lok framlengingar. Rashford og Sancho koma inn á, í þeim tilgangi að taka vítaspyrnu í yfirvofandi vítaspyrnukeppni.EPA/Andy Rain

Vilhjálmur og Katrín, hertoginn og hertogaynjan af Cambridge, fordæmdu hatursorðræðuna líkt og fjölmargir aðrir í morgun. Þau voru á meðal gesta á leiknum í gær. 

Í yfirlýsingu á Twitter sögðu þau slíka hegðun óboðlega í bresku samfélagi.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins tók í sama streng og Boris Johnson forsætisráðherra sagði enska liðið eiga skilið mikið hrós, ekki grófa kynþáttafordóma.

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins, tók undir gagnrýnina en sagði Johnson sjálfan ábyrgan að hluta.

Johnson hafi sagt Englendingum að það væri í lagi að baula á leikmenn sem reyndu að mótmæla rasisma. Það hafi sett slæmt fordæmi og því hafi fregnir af rasískum skilaboðum ekki komið á óvart.

Vísar Neville þarna til þess þegar Johnson neitaði að fordæma það í júní þegar enskir vallargestir bauluðu á leikmenn sem krupu í upphafi leiks til þess að mótmæla kynþáttafordómum.

Stuðningsmaður enska landsliðsins handtekinn á götum Lundúna í gær.Getty/Martin Pope

Við þetta má bæta að Henry Winter, blaðamaður The Times, telur að getuleysi Englendinga til að hafa hemil á fótboltabullum í nágrenni Wembley í gær muni koma niður á möguleikum Englands að halda HM í knattspyrnu árið 2030. Fjöldi miðalausra stuðningsmanna Englands kom sér inn á úrslitaleikinn og dæmi um að fólk hafi komið að bullum í sætum sínum og enginn þorað að gera neitt í því.

„Hegðun fótboltabullanna hefur augljóslega og réttilega verið fordæmd en öryggisgæslan á Wembley verður að vera betri,“ segir Winter og nefnir til viðbótar að stuðningsmaður hafi komist inn á völlinn. Sömuleiðis að baulað hafi verið á meðan þjóðsöng Ítala stóð.

Þessir vankantar minnki líkurnar á HM á Englandi 2030 verulega.

Að neðan má sjá myndband frá Wembley í gær.

Lundúnalögreglan segist hafa handtekið 49 í tengslum við leikinn í gær. Nítján lögreglumenn hafi slasast í átökum við stuðningsmenn. Lundúnalögreglan þakkar öllum þeim fjölda stuðningsmanna sem hegðuðu sér vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×