Innlent

Heilsugæslan segist ekki „henda“ sýnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristján Oddsson, framkvæmdastjóri Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana, og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuborgarsvæðinu.
Kristján Oddsson, framkvæmdastjóri Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana, og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuborgarsvæðinu.

Forsvarsmenn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segjast ekki „henda“ sýnum sem berast Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilsugæslunnar.

Vísir hefur greint frá því að framkvæmdastjóri Samhæfingarstöðvarinnar, Kristján Oddsson, hafi neitað að rannsaka sýni, bæði í samskiptum við kvensjúkdómalækna og sjúklinga.

Í tilkynningunni á síðunni kemur ekkert fram um það hvað verður um þau sýni sem ekki eru rannsökuð en á Íslandi gilda lög um varðveislu lífsýna.

Vísir hefur sent Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, erindi þar sem spurt er hvað verður um þau sýni sem eru ekki send áfram á rannsóknarstofuna í Danmörku.

Eru engin einkennasýni rannsökuð?

Sum af þeim sýnum sem Kristján hefur neitað að rannsaka eru svokölluð einkennasýni en þau falla ekki undir svokallaða lýðgrundaða skimun sem heyrir undir Samhæfingarmiðstöðina. 

Enginn annar farvegur er þó til fyrir þau nema um miðstöðina, þar sem ekki hefur verið samið við aðra aðila um frumusýnarannsóknir en rannsóknarstofuna í Danmörku.

Vísir birti fyrr í vikunni viðtal við Karen Evu Helgudóttur, sem fékk að vita að sýnið hennar yrði ekki rannsakað þrátt fyrir að hún væri búin að vera með einkenni frá leghálsi. 

Aðrir miðlar hafa síðan greint frá því að Kristján hafi hringt í Karen og tjáð henni að læknar ættu ekki að taka strok frá leghálsinum þegar um einkenni væri að ræða heldur senda konur í leghálsspeglun.

Í tilkynningunni á vef heilsugæslunnar segir:

„Skimun fyrir krabbameini í leghálsi er boð fyrir konur án einkenna. Mikilvægt er að konum með einkenni sé vísað í greiningarferli þar sem leitað er að orsök einkenna.“

Ekki er talað um hvað felist í umræddu ferli en ekki er hægt að lesa annað úr þessu en að Samhæfingarstöðin, og þar með heilsugæslan, telji það ekki sitt hlutverk að láta rannsaka einkennasýni.

Í fyrirspurn Vísis til heilsugæslunnar er einnig spurt um þetta atriði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×