Fótbolti

Reglan um mörk á útivelli afnumin

Sindri Sverrisson skrifar
Mörk á útivelli gilda alveg jafnmikið og mörk á heimavelli þegar Valsmenn mæta Dinamo Zagreb í júlí.
Mörk á útivelli gilda alveg jafnmikið og mörk á heimavelli þegar Valsmenn mæta Dinamo Zagreb í júlí. vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur tilkynnt að búið sé að afnema regluna um útivallamörk í öllum keppnum á vegum sambandsins. Það þýðir að mörk á útivelli telja alveg jafnmikið og mörk á heimavelli í Meistaradeild Evrópu og öðrum Evrópukeppnum.

Reglan um útivallamörk þýddi að ef að lið mættust í tveggja leikja einvígi, og skoruðu samtals jafnmörg mörk í einvíginu, þá var það lið sem skoraði fleiri mörk á útivelli úrskurðað sigurvegari. Aðeins ef að báðir leikir enduðu með nákvæmlega eins úrslitum, til að mynda jafntefli eða 1-0 sigri heimaliðs, var gripið til framlengingar.

Frá og með þessu sumri verður hins vegar gripið til framlengingar í hvert sinn sem að liðin skora samtals jafnmörg mörk í tveggja leikja einvígum. Þetta mun til að mynda gilda fyrir íslensku liðin sem leika í forkeppni Meistaradeildarinnar og Sambandsdeildarinnar í sumar.

Miðað við breyttar reglur er það því svo til dæmis að ef að Valsmenn tapa 2-0 fyrir Dinamo Zagreb í Króatíu en vinna 3-1 á Hlíðarenda verður gripið til framlengingar. Ef að liðin skora ekkert mark í framlengingunni, eða jafnmörg mörk, verður svo gripið til vítaspyrnukeppni.

Reglubreytingarnar varða líka riðlakeppnir. Ef að tvö eða fleiri lið eru jöfn að stigum og með sömu innbyrðis markatölu þá skiptir ekki lengur máli hvaða lið skoraði flest mörk á útivelli heldur ræður þá heildarmarkatala liðanna stöðu þeirra. Ef að heildarmarkatala er sú sama ræður hins vegar fjöldi skoraðra marka á útivelli lokastöðu liðanna.

Breytingarnar nár eins og fyrr segir til allra keppna á vegum UEFA, hjá körlum og konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×