Fótbolti

Jafntefli banvænt fyrir Króatíu og Skotland en óvíst að það henti Englandi að vinna toppslaginn

Sindri Sverrisson skrifar
Scott McTominay freistar þess að fylgja félaga sínum Marcus Rashford áfram í 16-liða úrslitin á EM í kvöld. Hér eigast þeir við í leik Skotlands og Englands sem lauk með markalausu jafntefli.
Scott McTominay freistar þess að fylgja félaga sínum Marcus Rashford áfram í 16-liða úrslitin á EM í kvöld. Hér eigast þeir við í leik Skotlands og Englands sem lauk með markalausu jafntefli. Getty/Robbie Jay Barratt

Tékkland og England leika um efsta sæti D-riðils á Wembley í kvöld en bæði lið eru örugg um sæti í 16-liða úrslitum EM. Króatía og Skotland leika úrslitaleik þar sem jafntefli yrði banabiti fyrir bæði lið.

Ljóst er að Króatía og Skotland munu spila til sigurs í kvöld. Liðin eru með eitt stig hvort og ef þau gera jafntefli eru þau bæði úr leik. Ef annað liðið vinnur leikinn endar það með fjögur stig og kemst í 16-liða úrslit, jafnvel þó að það endi í 3. sæti riðilsins. Eftir úrslit gærdagsins er nefnilega ljóst að fjögur stig duga til að fara áfram sem lið í 3. sæti.

Það gæti því orðið fróðlegt að sjá Króatíu og Skotland bæði tilbúin að taka áhættu í lok leiks í kvöld, verði staðan þá jöfn.

Staðan og leikirnir í D-riðli á EM.

Tékkland eða England mun enda efst í riðlinum en það er ekki endilega eftirsóknarvert, því efsta lið riðilsins mætir liðinu úr 2. sæti í F-riðli (Frakklandi, Þýskalandi, Portúgal eða Ungverjalandi). Sá leikur mun fara fram á Wembley.

Liðið sem endar í 2. sæti D-riðils mætir liðinu úr 2. sæti E-riðils (Svíþjóð, Slóvakíu, Spáni eða Póllandi), sem ágætar líkur eru á að verði Spánn þó ómögulegt sé að segja til um það. Sá leikur fer fram á Parken í Kaupmannahöfn.

Ef liðið í 3. sæti D-riðils kemst áfram mun það mæta efsta liði C-riðils (Hollandi) eða E-riðils (Svíþjóð, Slóvakíu, Spáni eða Póllandi).

Tékkland getur aðeins endað í 3. sæti ef liðið tapar fyrir Englandi og Króatía vinnur nógu stóran sigur til að komast yfir Tékkland á markatölu (þremur mörkum munar á markatölu liðanna fyrir kvöldið).

England getur aðeins endað í 3. sæti ef liðið tapar fyrir Tékklandi og Skotland vinnur nógu stóran sigur til að komast yfir England á markatölu (þremur mörkum munar á markatölu liðanna fyrir kvöldið).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×