Viðskipti innlent

Eyddu 220 milljörðum á ferð sinni um Ísland árið 2020

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ferðamaður við Dynjanda á Vestfjörðum.
Ferðamaður við Dynjanda á Vestfjörðum. Vísir/Vilhelm

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 3,9% árið 2020 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga, samanborið við 8% árið 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Heildarútgjöld ferðamanna á Íslandi, íslenskra og erlendra, námu 220 milljörðum króna árið 2020, og drógust saman um 58% borið saman við árið 2019. Komum erlendra ferðamanna hingað til lands fækkaði um 81% á sama tímabili.

Hagstofa Íslands

Á vef Hagstofunnar kemur fram að ferðaþjónustureikningar (e. tourism satellite accounts) séu hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Ferðaþjónustureikningar taka til útgjalda innlendra sem og erlendra ferðamanna á Íslandi.

Samhliða ferðaþjónustureikningum birtir Hagstofan nú í fyrsta sinn tölfræði um vinnumagn í ferðaþjónustu sem byggir á alþjóðlegum stöðlum þjóðhagsreikninga. Er því um að ræða nýja tölfræði en ekki endurskoðun á áður útgefnum tölum annarra sviða Hagstofunnar. Finna má ítarlega umfjöllun um niðurstöður og samanburð á ólíkri aðferðafræði við mat á fjölda vinnustunda í frétt Hagstofunnar frá árinu 2018.

Útgjöld íslenskra ferðamanna 56% af heildinni

Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu 122 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum, og drógust saman um 14% frá árinu 2019. Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna námu um 56% af heildarútgjöldum ferðamanna á Íslandi árið 2020, samanborið við aðeins 27% af heildarútgjöldum ferðamanna árið 2019 og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá upphafi tímaraðar árið 2009.

Stærstur hluti útgjalda íslenskra ferðamanna árið 2020 var vegna gistiþjónustu en útgjöldin jukust um tæplega 18% frá árinu 2019. Tæplega 32% aukning er áætluð í útgjöldum íslenskra ferðamanna vegna veitingaþjónustu árið 2020, samanborið við árið á undan. Gistinóttum íslenskra ferðamanna fjölgaði um 40% á sama tímabili.

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna drógust saman um 75%

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna námu 98 milljörðum króna árið 2020, samkvæmt bráðabirgðatölum, og drógust saman um 75% samanborið við árið 2019. Stærstur hluti eða um fimmtungur útgjalda erlendra ferðamanna árið 2020 var vegna gistiþjónustu en dróst þó saman um tæp 76% milli ára.

Hagstofa Íslands

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands tæplega 490 þúsund árið 2020, en þeim fækkaði um 81% frá árinu 2019. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fækkaði um 76% árið 2020 en gistinóttum um 75%.

Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka árið 2020

Árið 2019 taldist ferðaþjónusta þriðja stærsta atvinnugreinin á Íslandi, sem hlutfall af landsframleiðslu, en spilar ekki eins veigamikið hlutverk árið 2020. 

Hagstofa Íslands

Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki skilgreind sem atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.

Vinnumagn í ferðaþjónustu

Starfandi einstaklingum í ferðaþjónustu fækkaði um 31% árið 2020 samanborið við árið 2019, en um 21.000 manns störfuðu í tengslum við ferðaþjónustu árið 2020 samanborið við um 30.800 árið áður. Heildar vinnustundir í ferðaþjónustu drógust saman um 39% en 25,3 milljón vinnustundir voru unnar árið 2020 samanborið við 41,2 milljón vinnustundir árið 2019.

Hagstofa Íslands

Starfandi einstaklingum fækkaði hlutfallslega mest í starfsemi ferðaskrifstofa, farþegaflutninga á landi og gistiþjónustu árið 2020 borið saman við fyrra ár. Starfandi í gistiþjónustu fækkaði um 2.500, eða um 36%, frá árinu 2019. Starfandi fækkaði um 2.000 í starfsemi ferðaskrifstofa, 1.700 í veitingaþjónustu og 1.500 í farþegaflutningum með flugi á sama tímabili.

Hagstofa Íslands

Með greiðslu hlutabóta var fyrirtækjum gert kleift að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið á móti greiðslu atvinnuleysisbóta (hlutabóta). Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti 18. janúar síðastliðinn, fengu um 13.800 af þeim 21.000 starfandi einstaklingum í einkennandi greinum ferðaþjónustu greiddar hlutabætur á árinu. 

Af þessum einstaklingum störfuðu um 3.800 innan gistiþjónustu, 4.000 í veitingaþjónustu, 2.800 í farþegaflutningum með flugi og um 1.600 á vegum ferðaskrifstofa. Af fjölda starfandi voru hlutfallslega flestir á hlutabótaleið í störfum tengdum gistiþjónustu og farþegaflutningum með flugi en þar nýttu rúmlega 90% hlutabótaleiðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×