Innlent

Lög­regla stoppaði veg­far­endur og bauð þeim far í bólu­­­setningu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bólusetningar hafa gengið ágætlega í Húsavík.
Bólusetningar hafa gengið ágætlega í Húsavík. vísir/vilhelm

Mikið kapp var lagt í að koma út öllum bólu­efna­skömmtum sem heilsu­gæslan á Húsa­vík hafði til um­ráða í gær eftir heldur dræma mætingu í bólu­setningu. Lög­reglan á Húsa­vík lagði þar hönd á plóg, fór á rúntinn, fann óbólu­sett fólk og kippti því með sér á bólu­setningar­stöðina.

Vísir ræddi við Reyk­víking nokkurn sem var staddur á Húsa­vík í fjöl­skyldu­fríi í gær. Sá var ó­vænt stoppaður af lög­reglunni og spurður hvort hann væri bólu­settur. Það var hann ekki og var honum því kippt upp í bíl og keyrður í í­þrótta­húsið í bænum.

Og fjórum mínútum síðar er hann kominn með fyrri sprautu af bóluefni Pfizer.

Samstarfsverkefni framlínufólks

Vísir náði ekki í lög­regluna á Húsa­vík í dag en ræddi við Ás­laugu Hall­dórs­dóttur, yfir­hjúkrunar­fræðing á Húsa­vík. Hún segist ekki hafa vitað af því að lög­reglan hafi farið á rúntinn til að koma út bólu­efni í gær en trúir því þó vel upp á hana.

Bólusestningarverkefnið er jú samstarfsverkefni eins og hún bendir á:

„Hér hefur slökkvi­liðið, lög­reglan, sjúkra­flutninga­menn og hjúkrunar­fólk bara tekið höndum saman þegar það er svona stór hópur boðaður í bólu­setningu,“ segir hún.

Sjá einnig: Svona raðast árgangarnir í bólusetningu næstu þrjár vikur.

Um sjö hundruð manns voru boðaðir í sprautu með efni Pfizer á Húsavík í gær. „Svo stóðu út af nokkuð margir skammtar eins og gengur og gerist. Fólk er náttúru­lega bara boðað með SMS-i með litlum fyrir­vara og það er allur gangur á því hvar fólk er og hvort það kemst,“ segir Ás­laug.

Því hafi það verið látið berast um bæinn að hver sem er gæti mætt í í­þrótta­húsið og fengið bólu­setningu, svo skammtarnir færu ekki til spillis. Fjöldi Hús­víkinga aug­lýsti þetta á Face­book-síðum sínum.

„Efnið er auð­vitað við­kvæmt og lifir bara í á­kveðið langan tíma eftir að búið er að blanda það,“ segir Ás­laug. Spurð hvort Face­book-aug­lýsingar Hús­víkinga og rúntur lög­reglunnar hafi skilað ætlunar­verki sínu telur hún svo hafa verið. Vel tókst að koma auka­skömmtunum út en Ás­laug er ekki alveg viss hvort fá­einir skammtar hafi verið eftir eftir gær­daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×