Fótbolti

Pochettino náði að tala Gini til Parísar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Wijnaldum í vináttulandsleik gegn Skotum á dögunum en Hollendingar eru á leið á EM í sumar.
Wijnaldum í vináttulandsleik gegn Skotum á dögunum en Hollendingar eru á leið á EM í sumar. Broer van den Boom/Getty

Gini Wijnaldum hefur skrifað undir þriggja ára samning við PSG en Fabrizio Romano, fótboltablaðamaður, greinir frá.

Fabrizio er oftar en ekki fyrstur með fréttirnar er kemur að félagaskiptum leikmanna og hann hefur fylgst vel með málum Hollendingsins.

Lengi var útlit fyrir að hollenski landsliðsmaðurinn myndi fara til Barcelona og spila undir stjórn landa síns, Ronalds Koeman, en svo verður ekki.

Fabrizio greinir frá því að Gini hafi skrifað undir samninginn fyrr í dag, sem gildir til júní árið 2024, og læknisskoðunin fari fram í kvöld.

Mauricio Pochettino, stjóri PSG, á að hafa rætt reglulega við Wijnaldum og náð að tala hann til Parísar.

Það hjálpaði svo einnig til, svo um munaði, að PSG var tilbúinn að borga miðjumanninum töluvert betri laun en Barcelona gat boðið honum.

Wijnaldum hafði leikið með Liverpool frá 2016 en hann kom til Bítlaborgarinnar frá Newcastle. Einnig hefur hann leikið með Feyenoord og PSV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×