Fótbolti

Rússar reiðir vegna nýs landsliðsbúnings Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraína á landsliðstreyju úkraínska landsliðsins.
Úkraína á landsliðstreyju úkraínska landsliðsins.

Rússnesk yfirvöld hafa brugðist harkalega við nýrri landsliðstreyju úkraínskra karlaliðsins í knattspyrnu. Treyjan sýnir útlínur landsins, þar á meðal Krímskaga sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014.

Nýr landsliðsbúningur var kynntur til sögunnar á Facebook-aðgangi forseta úkraínska knattspyrnusambandsins í gær. 

„Við teljum að útlínur Úkraínu muni veita leikmönnunum styrk, því þeir munu berjast fyrir alla Úkraínu,“ sagði Andrii Pavelko á Facebook. „Og öll Úkraína, frá Sevastopol og Simferopol til Kíev, frá Donetzk og Lugansk til Uzhgorod, mun styðja þá í hverjum leik.“

Sevastopol og Simferopol eru á Krímskaga, þar sem Rússar ráða nú völdum, og Donetsk og Lugansk eru undir stjórn bardagamanna sem njóta stuðnings rússneskra stjórnvalda.

Framan á treyjunni eru landamæri Úkraínu dregin í hvítu en aftan á henni er að finna slagorðið „Dýrð sé Úkraínu!“ og innan á „Dýrð sé hetjunum!“

Rússneska fréttastofan RIA hefur eftir talsmanni rússneska þingsins að hönnun treyjunnar sé „pólitísk ögrun“ og ólögmæt, þar sem kortið sýni rússneskt landsvæði. Þá sagði talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins að slagorðin væru endurómur nasískra barátturhrópa.

Bandaríska sendiráðið í Kíev hefur hins vegar lýst velþóknun sinni á samfélagsmiðlum:

Evrópumótið í knattspyrnu stendur nú fyrir dyrum og munu nokkrir leikir fara fram á Krestovsky-leikvellinum í St. Pétursborg. Eins og sakir standa er ekki útlit fyrir að úkraínska liðið leiki í Rússlandi né á móti Rússum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×