Viðskipti innlent

Hluta­fjár­út­boð hafið og markaðs­virði Ís­lands­banka á­ætlað 150 milljarðar króna

Atli Ísleifsson skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi. Vísir/Egill

Bankasýsla ríkisins, fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands, og Íslandsbanki hf., hafa birt lýsingu og tilkynnt stærð fyrirhugaðs hlutafjárútboðs í bankanum og leiðbeinandi verðbil þess. Selja á rúmlega 636 milljón hluti en útboðshlutirnir, og valréttarhlutirnir, nema að hámarki 35 prósentum af heildarhlutafé bankans.

Þetta kemur fram á heimasíðu bankans en útboðið hefst klukkan níu í dag og á því að ljúka 15. júní næstkomandi. Leiðbeinandi verð er á bilinu 71 til 79 krónur á útboðshlut. 

Áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er 150 milljarðar króna, að því gefnu að verð á útboðshlut verði miðpunktur leiðbeinandi verðbils í útboðinu. Útboðið fer fram annars vegar með almennu útboði á hlutabréfum til fagfjárfesta og almennra fjárfesta á Íslandi og hins vegar lokuðu útboði til tiltekinna fagfjárfesta í ýmsum öðrum lögsögum.

Í tilkynningunni segir að til að mæta umframeftirspurn í útboðinu, hafi seljandi veitt söluráðgjöfum rétt til að kaupa 63.636.363 hluti, sem eru ígildi 10 prósentum af útboðshlutunum („valréttarhlutir“).

„Sjóðir í stýringu hjá Capital World Investors, RWC Asset Management LLP, Gildi-lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem hornsteinsfjárfestar, hafa hver um sig skuldbundið sig til að kaupa 76.923.077, 30.769.231, 46.153.846 og 46.153.846 hluti á endanlegu útboðsgengi (og á sérhverju gengi sem er innan leiðbeinandi verðbils).

Útboðið stendur yfir frá kl. 9:00, mánudaginn 7. júní 2021 og er áformað að því ljúki kl. 12:00, þriðjudaginn 15. júní 2021.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur samþykkt lýsingu vegna útboðsins.

Stjórn bankans mun óska eftir því að allt hlutafé bankans verði tekið til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

Allt söluandvirðið úr útboðinu mun renna til seljanda.

Sem stendur fer Ríkissjóður Íslands, beint og óbeint, með 100% af útgefnu og útistandandi hlutafé bankans og má ætla að í lok útboðsins verði hlutur seljanda í bankanum að lágmarki 65% af heildarhlutafé.

Seljandi skuldbindur sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, með fyrirvara um ákveðnar undantekningar sem eru í samræmi við viðteknar venjur á markaði.

Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG hafa sameiginlega umsjón með útboðinu og eru leiðandi söluráðgjafar ásamt Barclays Bank Ireland PLC, HSBC Continental Europe, Fossum mörkuðum hf. og Landsbankanum hf. Arion banki hf. og Kvika banki hf. eru leiðandi söluaðilar ásamt Arctica Finance hf., Íslenskum fjárfestum hf. og Íslenskum verðbréfum hf.,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Verðmeta Íslandsbanka á 155 til 242 milljarða króna

Fossar markaðir, sem er á meðal ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, áætlar að virði bankans sé á bilinu 222 til 242 milljarðar króna. Sjálfstæði greiningaraðilinn Jakobsson Capital metur bankann á 155 til 218 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×