Fótbolti

Pochettino vill losna frá PSG og færist nær endurkomu til Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Pochettino vann sína fyrstu titla á stjóraferlinum hjá Paris Saint-Germain.
Mauricio Pochettino vann sína fyrstu titla á stjóraferlinum hjá Paris Saint-Germain. getty/John Berry

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Paris Saint-Germain, hefur tjáð forráðamönnum félagsins að hann vilji losna frá því eftir aðeins hálft ár í starfi.

Pochettino hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Tottenham sem hann stýrði með góðum árangri á árunum 2014-19.

Tottenham er án stjóra en José Mourinho, eftirmanni Pochettinos, var sagt upp störfum í apríl. Ryan Mason stýrði Spurs í síðustu leikjum tímabilsins.

Svo gæti farið að Pochettino tæki aftur við Tottenham. Hann ku vera óánægður hjá PSG og hefur beðið forráðamenn félagsins um að fá sig lausan frá því í sumar.

Pochettino tók við PSG af Thomas Tuchel í janúar. Undir hans stjórn vann PSG frönsku bikarkeppnina og franska ofurbikarinn. Liðinu mistókst hins vegar að vinna franska meistaratitilinn og féll úr leik fyrir Manchester City í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×