Viðskipti innlent

Frið­rik kjörinn nýr for­maður BHM

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Jónsson
Friðrik Jónsson BHM

Friðrik Jónsson hefur verið kjörinn nýr formaður Bandalags háskólamanna til tveggja ára í rafrænni kosningu sem lauk á hádegi í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að Friðrik, sem er formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, taki við sem formaður BHM á aðalfundi bandalagsins næstkomandi fimmtudag. 

„Hann hlaut 69,5% atkvæða í kosningunni en Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga, sem einnig bauð sig fram í embættið, hlaut 30,5% atkvæða.

Samkvæmt lögum BHM er formaður bandalagsins kjörinn annað hvert ár í aðdraganda aðalfundar af fulltrúum sem aðildarfélögin tilnefna til setu á fundinum. Rafræn kosning hófst 13. maí og lauk sem fyrr segir á hádegi í dag. Samtals voru 189 aðalfundarfulltrúar á kjörskrá og af þeim greiddu 187 atkvæði í kosningunni. Kosningaþátttaka var því um 99%.

Friðrik Jónsson er fæddur árið 1967 og hefur undanfarin 25 ár starfað innan utanríkisþjónustu Íslands. Meðal annars hefur hann starfað á vettvangi Alþjóðabankans, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna og í sendiráðum Íslands í Washington og Kaupmannahöfn. Hann hefur einnig verið forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins. Friðrik er með MA-gráðu í alþjóðasamskiptum og MBA-gráðu í alþjóðaviðskiptum. Hann var kjörinn formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins á aðalfundi félagsins síðastliðið haust.“

Friðrik tekur við stöðunni af Þórunni Sveinbjarnardóttur, en Jóhann Gunnar Þórarinsson hefur verið starfandi formaður síðustu mánuði eftir að Þórunn tilkynnti um framboð til Alþingis í komandi kosningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×