Innlent

Mót­­mæla stefnu stór­veldanna á meðan ráðherrarnir funda

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mótmælendur stóðu fyrir utan Seðlabankann og sneru að Hörpunni. Ekki var hægt að komast nær byggingunni vegna varnargirðingar lögreglunnar.
Mótmælendur stóðu fyrir utan Seðlabankann og sneru að Hörpunni. Ekki var hægt að komast nær byggingunni vegna varnargirðingar lögreglunnar. vísir/aðsend

Á meðan utan­ríkis­ráð­herrar Rúss­lands og Banda­ríkjanna, Sergei Lavrov og Antony Blin­ken, funda í Hörpu munu mót­mæli fara fram fyrir utan bygginguna á vegum Sam­taka hernaðar­and­stæðinga. Ýmis fé­laga­sam­tök hafa í dag sent frá sér á­skorun til stór­veldanna um að láta af and­stöðu sinni við sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna um bann við kjarn­orku­vopnum og undir­rita hann sem fyrst.

Mót­mæla­fundurinn hefst klukkan 20 í kvöld og munu þau Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, og Gutt­ormur Þor­steins­son, for­maður Sam­taka hernaðar­and­stæðinga, flytja á­vörp.

Búið er að girða af svæðið fyrir utan Hörpu vestan Kalk­ofns­vegar og fer mót­mæla­fundurinn því fram hinum megin götunnar, fyrir utan Seðla­bankann.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, ávarpaði mótmælendurna.vísir/aðsend

Þessi fyrsti fundur utan­ríkis­ráð­herranna fer fram í Hörpunni en þeir eru báðir staddir á landinu vegna fundar Norður­skauts­ráðsins sem fer fram á morgun en þar munu Rússar taka við for­mennsku í ráðinu af Ís­lendingum.

Ekki er vitað hver til­gangur fundarins er ná­kvæm­lega en ljóst er að kollegarnir munu hafa um ýmis­legt að ræða. Það hefur andað ansi köldu á milli stór­veldanna undan­farið eftir aukinn hernað Rússa við landa­mæri Úkraínu og hafa Banda­ríkja­menn meðal annars gripið til við­skipta­þvingana gegn þeim.

Kjarnorkuvopn í kafbátum á norðurslóðum

Í yfir­lýsingu hinna ýmsu fé­laga­sam­taka er bent á að einn megin­til­gangur Norður­landa­ráðs sé að stuðla að frið­sam­legum sam­skiptum ríkja heims á norður­slóðum og að vinna gegn víg­væðingu og hernaðar­um­svifum.

Banda­ríkin og Rúss­land eru þau tvö ríki sem eiga megin­þorrann af kjarn­orku­vopnum heimsins.

Guttormur Þorsteinsson er formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, sem stóðu fyrir fundinum.vísir/aðsend

„Hluti þessa vopna­búrs er geymdur um borð í kaf­bátum sem sigla um heimsins höf, þar á meðal í við­kvæmri náttúru norður­slóða. Ljóst er að slys tengt slíkum kaf­bátum gæti haft skelfi­legar af­leiðingar fyrir um­hverfi og líf íbúa svæðisins,“ segir í yfir­lýsingunni.

Fé­laga­sam­tökin sem setja nafn sitt við á­skorunina eru:

Alda lýð­ræðis­fé­lag

Al­þýðu­sam­band Ís­lands

Barna­heill

Ís­lands­deild Am­ne­sty International

Kven­réttinda­fé­lag Ís­lands Lands­sam­band slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna

Náttúru­verndar­sam­tök Ís­lands Sam­tök hernaðar­and­stæðinga

Soka Gakkai International á Ís­landi

Ör­yrkja­banda­lagið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×