Viðskipti innlent

Gjaldeyrissölu vegna faraldursins hætt

Kjartan Kjartansson skrifar
Seðlabankinn byrjaði að selja gjaldeyri reglubundið eftir að gengi krónunnar hafði veikt töluvert og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk vegna áhrifa faraldursins í fyrra.
Seðlabankinn byrjaði að selja gjaldeyri reglubundið eftir að gengi krónunnar hafði veikt töluvert og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk vegna áhrifa faraldursins í fyrra. Vísir/Vilhelm

Seðlabanki Íslands ætlar að hætt reglubundinni sölu á gjaldeyri á mánudaginn en salan hófst í september vegna áhrif kórónuveirufaraldursins á innlendan gjaldeyrismarkað. Bankinn hefur selt 453 milljónir evra, jafnvirði 71,2 milljarða króna frá 14. september.

Í ljósi gengisstyrkingar íslensku krónunnar undanfarnar vikur og betra jafnvægis á gjaldeyrismarkaði telur Seðlabankinn ekki lengur þörf fyrir reglulega gjaldeyrissölu, að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Henni verður því hætt frá og með mánudeginum 3. maí. Hann muni þó áfram grípa inn í markaðinn til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telji tilefni til.

Byrjað var á reglubundnu gjaldeyrissölunni 14. September þegar gengi krónunnar hafði veikst töluvert vegna mikils samdráttar útflutningstekna og fjármagnshreyfinga og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var talin óskilvirk. Mat bankans var að aukið og stöðugt framboð á gjaldeyri úr forða bankans leiddi til aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum.

Gjaldeyrissalan fór þannig fram að Seðlabankinn seldi viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði þrjár milljónir evra hvern viðskiptadag. Dregið var úr umfangi og tíðni sölunnar með fækkun viðskiptadaga úr fimm í þrjá 7. apríl, en fjárhæð hverrar gjaldeyrissölu var óbreytt. Reglubundin gjaldeyrissala nam 50,8% af heildarveltu bankans með gjaldeyri á tímabilinu 14. september 2020 til 30. apríl 2021, og 22,2% af heildarveltu gjaldeyrismarkaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×