Fótbolti

Sol­skjær um um­mæli sín um Roma: „Ekki virðingar­leysi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær vonast til að koma Manchester United skrefi nær úrslitaleik í kvöld.
Ole Gunnar Solskjær vonast til að koma Manchester United skrefi nær úrslitaleik í kvöld. Getty/Matthew Peters

Fyrir nokkru síðan sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man. United, að hann þekkti ekki Roma-liðið og vissi ekki hvað biði United í Evrópudeildinni.

Þessi ummæli lét hann falla eftir síðari leikinn gegn Granada í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar en stuðningsmenn Roma voru allt annað en sáttir við þetta.

Þeir hengdu borða upp fyrir utan æfingasvæði Roma í gær, fyrir brottför liðsins til Englands, þar sem var mynd af Solskjær og leikmennirnir hvattir til þess að láta hann muna eftir Roma.

Á blaðamannafundi gærdagsins var Solskjær svo spurður út í þessi ummæli og þar fékk Norðmaðurinn tækifæri til þess að útskýra mál sitt.

„Auðvitað hafði ég séð þá spila en ég hafði ekki greint þá og farið ítarlega yfir þá,“ sagði Solskjær við Sky Sports.

„Þetta er frábært félag með mikla sögu. Ég er með tvær treyjur heima frá Totti og De Rossi sem ég skipti við þá. Ég þekki sögu þeirra og gæði.“

„Chris Smalling var þarna á síðasta ári svo við fylgdumst með. Nú höfum við greint þá og við erum klárir.“

„Þetta var ekki virðingarleysi á neinn hátt og ég held að allir viti það. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim,“ bætti Solskjær við.

Leikurinn hefst klukkan 19.00 á Old Trafford í kvöld og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×