Innlent

Lilja telur Samherja hafa gengið of langt

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. vísi/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir Samherja hafa gengið of langt í viðbrögðum sínum við umfjöllun Ríkisútvarpsins um fyrirtækið.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, rakti Samherjamálið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

„Varnir fyrirtækisins hafa ekki falist í því að hrekja það efnislega sem kom fram í þessum þáttum [Kveik] heldur hinu að sverta heimildarmenn og veitast að fréttamönnum sem efnið unnu með kærumálinu til siðanefndar og dreifingu á áróðursmyndböndum, þar sem sérstaklega hefur verið vegið að Helga Seljan, fréttamanninum sem bar hitann og þungann af þessari þáttagerð,” sagði Guðmundur og innti Lilju eftir hennar skoðun á athæfinu.

Lilja sagðist styðja Ríkisútvarpið í „þessari orrahríð”.

„Ég vil líka segja það að mér finnst Samherji ganga of langt. Hann gengur of langt í sínum viðbrögðum og mér finnst eins og þetta sé gert til þess að þreyta laxinn og vonast til að hann gefist upp. En þessi lax sem þeir eru að fást við bregst frekar þannig við að hann er að styrkjast. Hann syndir á móti straumnum og heldur áfram og ég tel að stjórn Ríkisútvarpsins hafi brugðist rétt við,” sagði Lilja.

„En það er mín skoðun að það skipti auðvitað öllu máli að fjölmiðlar séu frjálsir og að við styðjum að sjálfsögðu við Ríkisútvarpið okkar og ég tel að Samherji hafi gengið of langt.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×