Erlent

Rússar draga her­sveitir sínar til baka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rússar hafa haldið því fram að hernaðarviðvera þeirra við landamærin að Úkraínu sé vegna heræfinga.
Rússar hafa haldið því fram að hernaðarviðvera þeirra við landamærin að Úkraínu sé vegna heræfinga. EPA-EFE/VADIM SAVITSKY

Fjöldi rússneskra hersveita var í dag skipað að yfirgefa landamærin að Úkraínu og snúa aftur í herstöðvar sínar. Mikil spenna hefur verið milli ríkjanna undanfarnar vikur og hafa miklar áhyggjur ríkt um yfirvofandi borgarastríð í austurhluta Úkraínu með aðild Rússa.

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, skipaði í dag hluta hersveitanna, sem staðsettar eru við landamærin að Úkraínu, að fara þaðan. Evrópusambandið telur að um 100 þúsund rússneskir hermenn hafi haldið til við landamærin og á Krímskaganum, sem Rússland hertók árið 2014, undanfarnar vikur.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fagnaði tilskipun varnarmálaráðherrans í dag á Twitter. Hann hafði skorað á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að funda með sér á átakasvæðinu til þess að reyna að leysa úr stöðunni.

Fjöldi ríkja, þar á meðal Bandaríkin, Frakkland og Þýskaland hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins við Úkraínsku landamærin á Rússlandi. Bandarískar hersveitir í Evrópu hafa verið í viðbragðsstöðu vegna ástandsins undanfarnar vikur og hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti lofað Zelensky stuðningi Bandaríkjanna ef til átaka komi.

Þá hafði Atlantshafsbandalagið, NATO, einnig lýst yfir áhyggjum og hefur kallað til fundar í Júní vegna ástandsins.

Rússar hafa hins vegar haldið því fram að hernaðarviðveran tengist æfingum vegna „ógnandi tilburða“ NATO. Þá hafa yfirvöld í Rússlandi lýst því yfir að þau hyggist loka fyrir skipaumferð á svæðum í Svartahafinu sem gæti haft gífurleg áhrif á hafnarborgir í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Spennan magnast áfram í Úkraínu

Rússar segja Bandaríkjamönnum hollast að halda sig vel frá Krímskaga og segja að siglingar herskipa í Svartahafi sé ögrun gagnvart Rússlandi. Þetta hafa rússneskir miðlar eftir Sergei Ríabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.

Rússar óttast að borgar­stríð brjótist út í Úkraínu

Yfirvöld í Rússlandi segjast óttast það að átök muni brjótast út af fullum krafti að nýju í austurhluta Úkraínu. Rússar segjast þegar hafa hafið undirbúning á því að vernda rússneskan almenning á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×