Fótbolti

Samherjar og stuðningsmenn CSKA Moskvu sendu Herði Björgvini batakveðjur á íslensku og rússnesku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salomón Rondón, fyrrverandi framherji Newcastle United, hinn kátasti í bol með batakveðju til Harðar Björgvins Magnússonar.
Salomón Rondón, fyrrverandi framherji Newcastle United, hinn kátasti í bol með batakveðju til Harðar Björgvins Magnússonar. twitter/cska moskva

Hörður Björgvin Magnússon er greinilega í miklum metum hjá CSKA Moskvu en fyrir leikinn gegn Rotor Volgograd í gær sendu leikmenn og stuðningsmenn liðsins honum batakveðjur.

Íslenski landsliðsmaðurinn sleit hásin í leik gegn Tambov í síðustu viku og verður ekki meira með á tímabilinu. Hörður fór í aðgerð í Finnlandi á föstudaginn sem gekk vel.

Fyrir leik CSKA Moskvu og Rotor Volgograd í rússnesku úrvalsdeildinni í gær klæddust leikmenn Moskvuliðsins bolum þar sem Herði var óskað góðs bata. 

Kveðjurnar voru bæði á íslensku og rússnesku og aftan á bolunum var númerið 23 sem er treyjunúmer Harðar.

Stuðningsmenn CSKA Moskvu héldu einnig á borðum í stúkunni þar sem þeir sendu Herði batakveðjur.

Hörður þakkaði fyrir stuðninginn og batakveðjurnar á Twitter í gær og sagði að þær hvettu hann áfram.

CSKA Moskva vann leikinn í gær, 2-0, en Arnór Sigurðsson lagði upp fyrra mark liðsins. Skagamaðurinn lék fyrstu 64 mínútur leiksins.

CSKA Moskva er í 4. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 46 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×