Innlent

Hrafnslaupur upp í byggingakrana á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur og mikill áhugamaður um hrafna.
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur og mikill áhugamaður um hrafna. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Krummapar á Selfossi hefur heldur betur komið á óvart með varpstað því þau hafa búið til laup hátt upp í byggingakrana í bænum. Fuglafræðingur segir hrafninn einn gáfaðasta fugl, sem fyrirfinnst.

Byggingakraninn gnæfir yfir í iðnaðarhverfi á Selfossi og engin að spá í því. En þegar nánar er skoðað er mjög merkilegur hlutur í krananum en það er hrafnslaupur, sem krummapar hefur útbúið á síðustu vikum áður en kemur að varpi.

„Þetta er afar sérstakur staður, þetta þurfa hrafnarnir í Flóanum að nýta sér, hér er endalaus flatneskja. Þeir hafa ekki varpstaði þannig að þeir hafa gripið til ráðs að nýta sér óhefðbundna staði,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur.

En úr hverju eru laupurinn gerður?

„Þeir eru bara að safna saman sprekum, gaddavír og öllu mögulegu. Það er ótrúlega skemmtilegt að skoða hreiðurefnið hjá þeim. Svo fóðra þeir laupinn með ull. Eggin eru frekar lítil miðað við stærð fuglsins, þannig að það þarf að vera mjúkur botn, þetta er alveg meistaralega byggt.“

Laupurinn, sem er staðsettur hátt upp í byggingakrana á Selfossi þar sem hrafnsparið væntir þess að fá frið til að liggja á eggjunum og hugsa síðan um ungana sína þegar þar að kemur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Jóhann Óli segir að hrafninn sé með allra vitrustu fuglum.

„Já, hann er náttúrulega mjög gáfaður, þetta eru með alskörpustu fuglum. Hann getur hermt eftir, hann er stríðin og það er mikill ærsli og leikur í þeim oft þegar þeir fljúga um og kankast á. Það er bara svo margt í hegðun þeirra og atferli, sem gaman er að fylgjast með og gerir þá með skemmtilegustum fuglum.“

Það er ekki nóg með að Jóhann Óli sé heillaður af hrafninum því hann er líka góður að herma eftir krumma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×