Dramatík undir lok leiks á Emira­tes-vellinum í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Slavia Prag fagna jöfnunarmarki sínu.
Leikmenn Slavia Prag fagna jöfnunarmarki sínu. Julian Finney/Getty Images

Nicolas Pépé hélt hann yrði hetja Arsenal er hann kom liðinu yfir skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma gegn Slavia Prag í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Gestirnir jöfnuðu hins vegar metin í uppbótartíma leiksins og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Gestirnir frá Tékklandi gerðu sitt besta til að hægja á leik heimamanna og virtust einfaldlega ætla að virða jafnteflið. Staðan var markalaus í hálfleik en í þeim síðari reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að keyra upp hraðann í leiknum.

Það gekk ágætlega en Arsenal gekk djöfullega að klára færin hins vegar. Það er þangað til á 86. mínútu þegar Nicolas Pépé fékk sendingu frá Pierre-Emerick Aubameyang. Pépé kláraði færið af yfirvegun og hélt ef til vill að hann hefði verið að tryggja heimamönnum 1-0 sigur.

Svo var aldeilis ekki en í uppbótartíma fengu gestirnir hornspyrnu. Boltinn kom inn á teig þar sem hann skaust af fótlegg Pépé til Tomáš Holeš sem beið á fjærstöng. Holeš tókst að böðla knettinum yfir línuna og lokatölur því 1-1 á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld.

Liðin mætast aftur að viku liðinni og eins og staðan er í dag er Slavia Prag á leiðinni í undanúrslit.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira