Erlent

Segir Naval­ní vera að missa til­finningu í fót­leggjum og höndum

Atli Ísleifsson skrifar
Alexei Navalní í dómsal í febrúar síðastliðinn.
Alexei Navalní í dómsal í febrúar síðastliðinn. EPA

Heilsu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní hrakar enn og hefur hann verið að missa tilfinningu í fót- og handleggjum. Þetta segir lögfræðingur Navalnís, en Navalní er nú í fanganýlendu þar sem hann afplánar nú dóm vegna fjársvika.

Lögfræðingurinn Vadim Kobzev segir að skjólstæðingur sinn hafi nú í tvígang verið greindur með brjósklos. Navalní tilkynnti í síðustu viku að hann hafi hafið hungurverkfall þar sem hann krafðist þess að fá tilhlýðilega læknismeðferð vegna bakmeiðsla og verks í fótum.

BBC segir að Kobzev hafi heimsótt skjólstæðing sinn í gær og að Navalní hafi fundið fyrir sársauka við það eitt að ganga. „Það er mikið áhyggjuefni að veikindi hans hafa magnast sem lýsir sér þannig að hann er að missa tilfinningu í fótleggjum, höndum og úlnlið,“ sagði Kobzev á Twitter.

Hinn 44 ára Navalní var fyrr í vikunni fluttur á sjúkradeildina í fangelsinu í bænum Pokrov, austur af Moskvu, vegna vandræða með öndun. Hann hafði þá kvartað yfir miklum hósta og hita. Kobzev segir Navalní hafa misst um eitt kíló á dag vegna hungurverkfallsins.

Navalní sagði frá því á Instagram í gær að fangaverðir hafi reynt að grafa undan hungurverkfalli hans með því að grilla kjúkling nærri honum og sömuleiðis koma sælgæti fyrir í vösum hans.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa farið fram á að Navalní verði sleppt lausum þegar í stað. Búi hann við aðstæður sem jafnist á við pyndingar sem kunni að draga hann til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×