Innlent

Horfði á sprunguna opnast í Geldingadölum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hugi Þór Snorrason varð vitni af því þegar nýja sprungan opnaðist ofan við Geldingadali í gær.
Hugi Þór Snorrason varð vitni af því þegar nýja sprungan opnaðist ofan við Geldingadali í gær. Vísir/Arnar

Hinn níu ára gamli Hugi Þór Snorrason var á göngu með afa sínum, Kristjáni Kristjánssyni, á gossvæðinu í gær þegar þeir heyrðu drunur og sáu skyndilega mikinn reyk koma upp úr jörðinni.

„Þegar ég var að horfa og borða nesti með afa þá kom allt í einu svona dynkur. Svo sáum við að það kom gusa upp úr jörðinni aftan á og þá var bara komið nýtt eldgos,“ sagði Hugi Þór Snorrason.

Fljótlega sáu þeir eldtungur spýtast úr sprungunni. Þetta var fyrsta ferð þeirra beggja að gosstöðvunum og lýsir Hugi Þór gosinu sem mikilfenglegu.

Hvernig myndir þú útskýra fyrir krökkunum í skólanum hvernig það var að sjá eldgosið?

„Það var svona rosa heitt á sumum stöðum og spýttist upp úr því.“

Hugi Þór segist ekki hafa orðið vitund hræddur og hélt ró sinni. Hann er viss um að hann muni eftir atvikinu lengi.

En hvernig lykt var af gosinu? 

„Brunalykt svona eins og á áramótunum,“ sagði Hugi Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×