Íslenski boltinn

Þórður Þor­steinn aftur í raðir Skaga­manna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórður Þorsteinn skrifaði undir hjá uppeldisfélaginu á nýjan leik í dag.
Þórður Þorsteinn skrifaði undir hjá uppeldisfélaginu á nýjan leik í dag. ÍA

Þórður Þorsteinn Þórðarson, eða einfaldlega ÞÞÞ eins og hann er oft kallaður, er genginn í raðir ÍA á nýjan leik. Mun hann leika með liðinu í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð.

Þórður Þorsteinn er 26 ára gamall og hafði leikið með ÍA allan sinn feril þangað til hann samdi við FH síðla sumars árið 2019. Þaðan fór hann til HK um mitt sumarið 2020 og nú er hann kominn aftur í heimahagana.

„Ég er glaður að vera kominn heim í ÍA og hlakka til baráttunnar í sumar með strákunum. Það er spennandi sumar framundan í boltanum og markmiðið ávallt að ÍA verði í fremstu röð," sagði þessi fjölhæfi leikmaður á Facebook-síðu Skagamanna er félagaskiptin voru tilkynnt í dag.

Ekki kemur fram um hversu langan samning er að ræða og þá eru félagaskiptin ekki gengin í gegn á vef KSÍ.

Þórður Þorsteinn hefur leikið alls 84 leiki í efstu deild hér á landi og gert í þeim átta mörk. Hann hefur aðallega leikið sem hægri bakvörður eða hægri vængmaður en enn á eftir að koma í ljós hvar Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, mun spila Þórði á vellinum í sumar.

ÍA mætir Íslandsmeisturum Vals á útivelli þann 22. apríl í opnunarleik Pepsi Max-deildarinnar þetta sumarið. Það er ef ekki þarf að fresta mótinu vegna kórónufaraldursins en sem stendur mega liðin ekki æfa saman og óvíst hvort mótið geti hafist á tilætluðum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×