Innlent

Eldsumbrotum á Reykjanesi eigi eftir að fjölga til muna

Eiður Þór Árnason skrifar
Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Vísir/Egill

Einn reynslumesti jarðeðlisfræðingur landsins segir að gosið í Geldingadal sýni að runnið sé upp nýtt kvikuskeið á Reykjanesinu. Eldsumbrotin minni á upphaf Kröfluelda og faslega megi gera ráð fyrir fleiri eldgosum á Reykjanesskaganum í náinni framtíð.

„Þetta er semsagt staðfesting á því að sennilega erum við að ganga inn í nýtt kvikuskeið,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Kröflueldar voru hrina eldgosa og kvikuhlaupa sem stóð yfir á árunum 1975 til 1984 en tímabilið hófst með örlitlu gosi líkt og því sem nú sést í Geldingadal.

„Þessi tvö gos, gosið sem er nú er í gangi og þetta litla örgos sem var þarna rétt fyrir jólin 1975 keppa núna um það að vera minnsta gos sem við höfum séð,“ segir Páll.

„Eftir það fylgdu fimm ár þar sem gangar gegnu bæði norður í Gjástykki og suður í Bjarnarflag og í sumum tilfellunum urðu lítil gos alveg fram til 1980, fyrstu fimm árin af umbrotunum, og við tóku fimm stærri gos seinna í þessu ferli.“

Gosunum hafi ekki lokið fyrr en níu árum seinna og kvikuvirknin í Kröflu ekki hætt fyrr en árið 1989 þegar kvikutímabilið var búið að standa í fimmtán ár.

Eldgosið í Geldingadal er mikið sjónarspil það sé smátt í sniðum.Vísir/vilhelm

Lengi beðið eftir gosi á Reykjanesi

Páll segir ekki síður mikilvægt að horfa til jarðsögunnar á Reykjanesskaga en fyrir gosið í gær höfðu engin gos sést á svæðinu frá árinu 1240.

„Menn hafa verið að bíða eftir því að sjá merki þess að eldvirkni taki sig upp aftur á Reykjanesskaga þar sem þetta er á eldvirkum flekaskilum. Þetta langa hlé á gosvirkni er dálítið einkennilegt því að það þarf að bæta efni í jarðskorpuna þegar hún gliðnar í sundur og það þarf að bæta það sem er tekið í burtu.“

„Síðasta kvikskeið af þessu tagi dundi hér yfir á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, það voru sum sé mörg gos og talsverð hraungos sem urðu á Reykjanesskaga svona frá sirka 900 fram til 1240 og eftir það þá gaus ekki neitt.“ segir Páll.

Kortið sýnir staðsetningu gosstöðvanna miðað við Grindavík og fleiri staði.

„Þannig við erum að tala um eitthvað svoleiðis skeið þar sem geta orðið kannski tíu eða tuttugu hraungos á kannski 200 eða 300 ára skeiði. Það er svona það sem við erum kannski að horfa á í framtíðinni. Það þýðir ekki að hér sé alltaf bullandi eldgos en það má reikna með að eldgosatíðni framvegis verði meiri en hingað til.“

Þá sýni sagan að líklegra sé að stærri gosin komi seint í atburðarásinni.

„Svo kannski erum við að horfa upp á endurtekin smágos á Reykjanesi áður en kemur til alvarlegra hraungosa. Það er ekki víst að við hér upplifum þessi stæri hraungos en það má telja það frekar líklegt að við eigum eftir að upplifa fleiri svona smágos.“

Gosið hluti af sögu sem hófst í lok ársins 2019

Spurður nánar út í þróunina í Geldingadal segir Páll ekkert hægt að spá fyrir hvort gosið þar eigi eftir að fjara út eða færast í aukanna.

„Þetta er út af fyrir sig mjög lítill atburður, þetta er eitt minnsta eldgos sem við höfum séð nokkurn tímann en við veðrum að skoða það í víðu samhengi. Þetta er partur af sögu sem er búin að vera í gangi frá desember 2019 þegar fyrstu skjálftahrinurnar byrjuðu, eiginlega nokkuð nákvæmlega á þessum stað sem núna gýs.“

Páll segir jafnframt að gosið hafi staðfest þá túlkun sem vísindamenn hafi haft á gögnin og jarðhræringarnar á svæðinu.


Tengdar fréttir

Eitt minnsta gos sem sögur fara af og hraunflæðið á við Elliðaár

Ólíklegt er að mikil jarðskjálftavirkni verði í kjölfar eldgossins í Geldingadal en áfram er von á smáskjálftum. Engin hætta stafar af gasmengun í byggð að svo stöddu en mengunin gerir að að verkum að mjög hættulegt getur verið að fara upp að svæðinu við vissar aðstæður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×