Innlent

Jarðskjálftahrina við Reykjanestá

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessu korti hefur verið töluverð skjálftavirkni við Reykjanestá.
Eins og sést á þessu korti hefur verið töluverð skjálftavirkni við Reykjanestá. Veðurstofa Íslands

Upp úr klukkan 04:30 í morgun hófst jarðskjálftahrina um fjóra kílómetra vestnorðvestur af Reykjanestá.

Elísabet Pálmadóttir, nátttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að um 150 skjálftar hafi mælst í hrinunni. Átta þeirra hafi verið yfir þremur og tveir 3,7 að stærð. Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að þeir skjálftar hafi fundist í nágrenninu, til að mynda í Grindavík.

Enginn órói fylgir virkninni og segir Elísabet að það sé ekki óvenjulegt að skjálftavirknin hoppi svona á milli eldstöðvakerfanna á Reykjanesskaga. Það hafi til dæmis verið viðvarandi í fyrra þegar landris hófst við Þorbjörn.

Um 400 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg frá miðnætti. Virknin hefur aðallega verið við Fagradalsfjall og Reykjanestá.

Það hafa því aðeins mælst um 250 skjálftar í og við Fagradalsfjall nótt og samkvæmt töflu á vef Veðurstofunnar var enginn þeirra yfir þremur en á því svæði hefur virknin verið hvað mest undanfarnar vikur.

Elísabet segir að þótt dregið hafi úr skjálftavirkninni undanfarna daga þá telja vísindamenn enn líkur á eldgosi á skaganum. Þá séu enn líkur á stærri skjálftum og svo geti þetta einfaldlega fjarað út án þess að nokkuð meira gerist.

Fréttin var uppfærð klukkan 06:35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×