Innlent

„Með því sterkara sem hefur fundist“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Jörð skelfur á Reykjanesskaga.
Jörð skelfur á Reykjanesskaga. Vísir/Vilhelm

„Þetta var svona með því sterkara sem hefur fundist. Hann var langur og það hristist vel hérna,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík.

Öflugur skjálfti reið yfir á Reykjanesskaganum klukkan rúmlega 14. Ekki liggur fyrir nákvæm stærð skjálftans að svo stöddu. 

Bogi segir björgunarsveitir í viðbragðsstöðu en hann hefur ekki fengið neinar tilkynningar enn sem komið er. Hjá honum sjálfum í Grindavík urðu einhverjar skemmdir en fréttastofa hefur fengið upplýsingar um skemmdir og að hrunið hafi úr hillum hjá fólki.

„Ég sé smá hérna heima hjá mér. Það poppaði út ein veggplata allavega.“

Bogi var nýkominn niður af háalofti heima hjá sér þegar skjálftinn reið yfir.  „Svona hálfri mínútu áður var ég uppi á lofti. Ég hefði ekki viljað vera þar þegar skjálftinn varð,“ segir hann.

Sigurður Enoksson, bakari í Grindavík, lýsir skjálftanum sem „rosalegum“.  „Allar skúffur í hillusamstæðunni inni í stofu opnuðust. Borðtölvan og skjárinn flugu út á gólf, en skjárinn er ekki brotinn," segir hann.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×