Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - Höttur 93-73 | Topp­liðið af­greiddi ný­liðana

Atli Arason skrifar
Vísir/Vilhelm

Keflavík vann þægilegan 20 stiga sigur gegn Hetti í kvöld. Leikurinn byrjaði þó ekki vel hjá heimamönnum.

Keflavík skoraði fyrstu stig leiksins en það leið ekki á löngu áður en Sigurður Þorsteins fór í gang en Siggi setti niður fjögur fyrstu stig Hattar þar á meðal hörku troðslu í upphafi leiks. Deane Williams ætlaði sér þó ekki að vera neitt síðri. Williams setti alls niður þrjár sjónvarpsvænar troðslur í fyrsta leikhluta við mikinn fögnuð heimamanna í höllinni, sem voru allir að mæta á sinn fyrsta leik á tímabilinu eftir að áhorfendabanninu var aflétt. Fyrsti leikhluti var heilt yfir mjög jafn og fór svo að gestirnir unnu hann frekar óvænt en sanngjarnt, 16-22.

Keflvíkingar voru staðráðnir að sýna sitt rétta andlit svona loksins þegar fólkið þeirra var mætt í höllina og allt annað lið mætti í annan leikhluta. Heimamenn tóku mest 10-0 kafla og löguðu stöðuna töluvert og voru að fyrri hálfleik loknum 6 stigum yfir, 44-38.

Það var sömu sögu að segja af þriðja leikhluta og þeim öðrum. Keflavík hélt áfram að bæta í forskot sitt á meðan gestirnir frá Egilsstöðum höfðu enginn svör. Dominykas Milka, sem hafði verið mjög rólegur í stigaskorun í fyrri hálfleik fór þá almennilega af stað sem gerði gestunum ekki gott. Í lok leikhlutans var staðan 71-55 og leiknum nánast lokið fyrir síðasta leikhluta.

Gestirnir komust þó á skrið í síðasta leikhlutanum og náðu að minnka leikinn niður í 8 stig en nær komust þeir ekki. Keflavík setti í fluggír síðustu mínúturnar og unnu leikinn að lokum með 20 stigum, 93-73.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík var einfaldlega betra á nánast öllum vígvöllum í kvöld. Ásamt því að hitta betur og skora fleiri stig þá unnu þeir frákastaleikinn 43-29. Keflavík var heilt yfir betra bæði í vörn og sókn í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Deane Williams átti stórkostlegan leik og var með algjöra sýningu í kvöld. Williams átti nokkrar mjög fallegar troðslur ásamt því að setja niður 26 stig og taka 7 fráköst. Willams endaði leikinn með 28 framlagspunkta og var án vafa maður leiksins í Keflavík í kvöld.

Hvað gekk illa?

Höttur tapaði boltanum aðeins of oft, sem Keflvíkingar refsuðu fyrir í nánast hvert skipti.

Hvað gerist næst?

Keflavík á næst annan heimaleik, í þetta sinn gegn Þór frá Akureyri núna á fimmtudaginn. Höttur á leik á sama tíma, aftur á Reykjanesinu, í þetta skipti gegn Grindavík.

Viðar Örn: Við værum í stór hættu hér með nötrandi jörð bullandi eldgosahættu

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var óánægður með heimsóknina á Reykjanesskaga í kvöld eftir 20 stiga tap gegn Keflavík.

„Ég er fúll að hafa tapað. Við vorum að tapa mikið af boltum. Þegar Keflavík skipti yfir í svæði í þriðja þá lentum við í vandræðum og lentum svolítið langt á eftir. Ég er samt ánægður með karakterinn því við komum okkur aftur inn í leikinn en við gerðum aldrei alvöru tilkall til að hrista vel upp í þessu,“ sagði Viðar í viðtali eftir leik.

„Það vantaði aðeins upp á ryþma, við vorum að gera feila og ekki að taka nógu góðar ákvarðanir bæði í vörn og sókn. Við verðum bara að halda áfram að reyna að verða betri, þessi gamla tugga.“

Viðar missti stjórn á skapi sínu í fjórða leikhluta þegar Dino Stipcic fékk sína fimmtu villu og eftir samræður við Davíð Tómas dómara grýtti Viðar töflunni sinni í vegginn.

„Við viljum meina að þetta hafi verið hans fjórða villa en það gæti vel verið að ég hafi talið vitlaust. Ég var bara jafn lélegur eða verri en mínir menn í dag,“ svaraði Viðar aðspurður um bræðiskastið.

Höttur var án stigahæsta leikmanni síns á tímabilinu í dag, Michael Mallory II, en það gæti verið að Mallory verður frá í lengri tíma vegna meiðsla.

„Staðan er ekki góð. Við þurfum að vera tilbúnir að spila án hans eitthvað á næstunni. Við getum ekki verið að spila honum meiddum. Hann er óleikfær eins og er. Það er vonandi að hann komi aftur inn á þessu tímabili hjá okkur.“

Jörð heldur áfram að nötra á Reykjanesskaga eins og undanfarna daga. Þrátt fyrir að eiga annan leik á Reykjanesi eftir þrjá daga þá langar Viðari ekkert að dvelja þar lengur en þarf.

„Við förum heim í fyrramálið. Við værum í stór hættu hér með nötrandi jörð bullandi eldgosahættu. Við reynum að takmarka þetta eins mikið of við getum. Við þurfum að koma aftur á Reykjanesskaga og við komum auðvitað aftur. Við ætlum að vinna í Grindavík á fimmtudaginn,“ sagði Viðar að lokum með smá bros á vör.

Hjalti Þór: Við hefðum átt að gefa meira í

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var augljóslega ánægður með sigurinn í kvöld þrátt fyrir að vera ósáttur við byrjun sinna manna.

„Við vorum rosa ryðgaðir til að byrja með. Takturinn var ekki alveg okkar megin. Við náum svo ágætu áhlaupi, sérstaklega í seinni hálfleik en við vorum allt of linir í lok þriðja og byrjun fjórða og þeir komust inn í þetta aftur, við vorum samt alltaf yfir en við hefðum átt að gefa meira í.“

„Hörður er ekki búinn að vera hérna í tvær vikur, ég er ekki búinn að vera hérna í tvær vikur en strákarnir voru samt búnir að vera duglegir. Finnur og Sævar búnir að gera frábært starf á meðan að ég var úti,“ sagði Hjalti sem er líka aðstoðarlandsliðsþjálfari og búinn að fylgja landsliðinu á eftir í landsleikjahléinu.

Hjalti var eins og aðrir ótrúlega ánægður með stuðninginn sem liðið fékk af pöllunum í kvöld.

„Þetta er geggjað. Strákarnir á bekknum hafa verið geggjaðir hingað til að reyna að búa til smá stemningu en þetta er geggjað að fá áhorfendur aftur í salinn,“ svaraði Hjalti aðspurður út í stemninguna í Keflavík í kvöld.

Deane Williams átti stórleik í kvöld en Hjalti var ánægður með hans framlag.

„Hann steig upp í dag, CJ var flottur líka. Deane var virkilega góður en fjarkarnir þeirra eru hægari en hann, þannig að hann naut sín betur en aðrir í liðinu í kvöld,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson að lokum

„Þetta er hluti af íslensku upplifuninni“

Deane Williams, leikmaður Keflavíkur átti stórkostlegan leik í kvöld þegar Keflavík vann 20 stiga sigur á Hetti, 93-73. Williams var með 26 stig og 7 fráköst ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Hann telur að áhorfendurnir sem voru að koma á sinn fyrsta heimaleikinn á tímabilinu hafi spilað stórt hlutverk í sinni frammistöðu.

„Það er frábært að áhorfendur aftur. Maður veit ekki hvað áhorfendurnir eru stór hluti af leiknum fyrr en þeir eru farnir. Við ættum fyrst og fremst að vera þakklátir að áhorfendur eru komnir aftur,“ sagði Deane Willams.

Það var augljóst að sjá á stóru brosi Williams í gegnum leikinn að hann var elska að hafa áhorfendur í salnum og þakkaði hann þeim með sýningu í kvöld en fjórum sinnum tróð hann boltanum glæsilega í körfuna við mikinn fögnuð heimamanna.

„Í þeim augnablikum sem maður er orðinn þreyttur þá er auðvelt að sækja orku frá áhorfendunum. Maður horfir upp í stúku og sér öll andlitin og veit að þau eru að treysta á að maður sæki sigurinn fyrir liðið. Þau gefa liðinu klárlega auka orku. Ég elska að áhorfendurnir eru komnir aftur.“

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að jörðin hefur verið að titra mikið á Reykjanesskaga og komst Deane ekki frá án þess að vera spurður aðeins út í það hvernig skjálftarnir höfðu áhrif á hann.

„Þetta hefur ekkert verið svo slæmt hjá mér. Konan mín er samt frekar smeyk við þetta, í hvert skipti sem hurðin skellist þá kippir hún sér við. Þetta er samt klárlega skrítin tilfinning en þetta er hluti af íslensku upplifuninni,“ sagði Deane hlægjandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira