Sport

Hundurinn fór að „þrífa“ hana í miðri handstöðuarmbeygju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þuríður Erla Helgadóttir getur búist við truflun hvenær sem er þegar Max er nálægt.
Þuríður Erla Helgadóttir getur búist við truflun hvenær sem er þegar Max er nálægt. Instagram/@thurihelgadottir

Þuríður Erla Helgadóttir ætlaði að taka hörkuæfingu en einn á heimilinu var ekki alveg nógu sáttur við útlitið á henni.

Íslenska CrossFit konan Þuríður Erla Helgadóttir hefur heimastöð í Sviss þar sem hún undirbýr sig nú fyrir komandi CrossFit tímabil.

Þuríður Erla og kærasti hennar Kristján Hrafn Kristjansson hafa aðstöðu hjá CrossfitZug í Hünenberg, suður af Zürich. Á heimilinu eru líka hundarnir Rocko og Max.

Rocko kom á undan en Max bættist síðan í hópinn. Max er ekki alveg búinn að læra það hvernig á að haga sér þegar „mamma“ er að æfa.

Þuríður Erla setti myndband inn á Instagram síðu sína þar sem hún sást vera að gera handstöðuarmbeygjur af miklum krafti.

Max mætir þá á svæðið og fer að „þrífa“ hana í miðri æfingunni. Þuríður Erla gat skiljanlega ekki haldið andlitinu og fór að hlæja af tilþrifum Max.

Hún hafði líka svo gaman af að hún setti myndbandið inn á Instagram fyrir 138 þúsund fylgjendur sína. Sara Sigmundsdóttir er ekki eina íslenska CrossFit stjarnan sem vill hafa hundana sína í kringum sig þegar hún er að æfa.

Þuríður Erla náði sínum besta árangri á heimsleikunum árið 2019 þegar hún náði níunda sætinu. Hún komst ekki á heimsleikana í fyrra en varð fjórða hæsta íslenska konan í The Open.

Hér fyrir neðan má sjá þetta fyndna myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×