Fótbolti

Gætu spilað EM í fjórum borgum í stað tólf

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harry Kane og félagar gætu spilað á heimavelli komast þeir í undanúrslitin á EM í sumar.
Harry Kane og félagar gætu spilað á heimavelli komast þeir í undanúrslitin á EM í sumar. EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

UEFA gæti fækkað borgunum sem eiga að halda Evrópumótið í fótbolta í sumar úr tólf í fjórum. Daily Mail greinir frá þessu á vef sínum en UEFA gæti neyðst til þess vegna stöðunnar á kórónuveirufaraldrinum.

Mótið átti upphaflega að fara fram síðasta sumar en var frestað um eitt ár vegna faraldursins. Nú gæti löndunum verið fækkað úr tólf í fjórum en England, Portúgal, Þýskaland og Rússland eru taldir líklegir staðir.

Aleksander Ceferin forseti UEFA hefur hins vegar enn áhuga á að halda EM í borgunum tólf en þetta sagði hann eftir fund í dag. Ekki er talið að nánari ákvörðun um málið verði tekin fyrr en í fyrsta lagi í apríl.

Hann sagði hins vegar að UEFA þyrfti að vera tilbúið að hliðra til ef svo bæri undir. Allar tólf þjóðirnar segjast enn tilbúnar að halda mótið en stjórnvöld í einhverjum af löndunum tólf gætu stigið niður fæti er mótið nálgast.

Undanúrslitin og úrslitaleikurinn á að fara fram á Englandi og staða Englands hvað varðar bóluefni er sagt hjálpa Englendingum að geta tekist á við undanúrslitaleikina tvo og úrslitaleikinn.

Mótið fer fram 11. júní til 11. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×