Innlent

Tollurinn fái víðtækari heimildir til þess að leita í farangri

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Í greinargerð frumvarpsins segir að reiðufé úr brotastarfsemi sé flutt úr landi og að erfitt hafi verið fyrir tollgæslu að tryggja að eigandi sé viðstaddur leit.
Í greinargerð frumvarpsins segir að reiðufé úr brotastarfsemi sé flutt úr landi og að erfitt hafi verið fyrir tollgæslu að tryggja að eigandi sé viðstaddur leit. vísir/Vilhelm

Drög að frumvarpi til breytinga á tollalögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Tollyfirvöldum eru þar veittar auknar heimildir til þess að leita í innrituðum farangri, án þess að eigandinn sé viðstaddur. 

Í greinargerð segir að með ákvæðinu sé  brugðist við ábendingum FATF, alþjóðlegs starfshóps sem vinnur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, varðandi skort á eftirliti með flutningi reiðufjár til og frá landinu.

Samkvæmt núgildandi tollalögum er tollgæslu heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til síðari skoðunar. Gefa þarf eiganda kost á því að vera viðstaddur skoðunina. 

Í áhættumati ríkislögreglustjóra frá apríl 2019 segir að Íslendingar búi ekki yfir nægum úrræðum til að hafa eftirlit með smygli á reiðufé hjá farþegum, í farangri og vörusendingum. 

Í greinargerð frumvarpsins segir að lögreglu og tollgæslu hafi borist ábendingar um að þessar flutningsleiðir séu notaðar til að flytja reiðufé úr landi. Meðal annars reiðufé sem grunur leikur á að komi frá refsiverði brotastarfsemi, líkt og fíkniefnasölu og vændi.

Þá segir að erfitt hafi reynst að koma því við að eigandi farangurs sé viðstaddur leit í innrituðum farangri. Tollgæslu hafi því stundum verið nær ómögulegt að framkvæma leitina.

Samkvæmt frumvarpinu ber þó að tilkynna eiganda farangurs að leit hafi farið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×