Viðskipti innlent

Kristrún hættir hjá Kviku

Sylvía Hall skrifar
Kristrún Frostadóttir hættir sem aðalhagfræðingur Kviku banka
Kristrún Frostadóttir hættir sem aðalhagfræðingur Kviku banka Kvika

Kristrún Mjöll Frostadóttir mun láta af störfum sem aðalhagfræðingur hjá Kviku banka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marinó Erni Tryggvasyni bankastjóra til starfsmanna þar sem Kristrúnu er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Frá þessu er greint á vef mbl.is í dag, en Kristrún hóf störf hjá Kviku í janúar árið 2018. Áður starfaði hún sem hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands en þaðan kom hún frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley.

Kristrún gaf gaf kost á sér í ráðgefandi skoðanakönnun um uppstillingu á lista hjá Samfylkingunni, og þykir líklegt að hún muni leiða í lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Í framboðskynningu Kristrúnar sagðist hún vilja nýta þekkingu sína á efnahagsmálum samfélaginu til góðs og að hún ætlaði sér að tala tæpitungulaust.

„Almenning þyrstir í hreinskipta umræðu um efnahagsmál sem er laus við frasa og yfirborðskennt þras, og sem byggir á greiningum á grunni bestu þekkingar. Víða má merkja óþol á stjórnmálum meðal fólks sem vill alvöru samræður og skilning,“ sagði Kristrún.

Kristrún er með meistaragráðu í alþjóðafræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum, með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál, og meistaragráðu í hagfræði frá Boston-háskóla. Þá er hún með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Ekki náðist í Kristrúnu við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×