Handbolti

Guðmundur skýtur á sérfræðinga RÚV: „Einhver íslensk minnimáttarkennd sem brýst út“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson brýnir leikmenn íslenska liðsins í leiknum gegn Sviss í fyrradag.
Guðmundur Guðmundsson brýnir leikmenn íslenska liðsins í leiknum gegn Sviss í fyrradag. epa/Anne-Christine Poujoulat

Guðmundur Guðmundsson sendi handboltasérfræðingum RÚV tóninn í gær og velti því upp hvort of miklar væntingar hefðu áhrif á íslenska landsliðið inni á vellinum á HM í Egyptalandi.

Þeir Arnar Pétursson og Logi Geirsson hafa staðið sérfræðingavaktina í HM-stofu RÚV undanfarna daga. Þeir, eins og aðrir, voru ekki hrifnir af frammistöðu íslenska liðsins í tapinu fyrir því svissneska, 20-18, í fyrradag.

Í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær sagði Guðmundur að umræðan um íslenska liðið væri á villigötum og að óöryggi liðsins mætti hugsanlega skýra með óraunhæfum væntingum til þess.

„Ég velti því fyrir mér þegar ég var búinn að ná mér niður eftir leikinn hvað veldur þessu óöryggi, það kemur fram í skotunum maður gegn manni, í hraðaupphlaupunum. Það er óöryggi yfir liðinu og það getur vel verið að það sé búið að spila upp einhverjar væntingar sem menn eiga erfitt með að standa undir, sérstaklega þegar liðið hefur orðið fyrir þessum skakkaföllum sem það hefur orðið fyrir,“ sagði Guðmundur.

„Menn eru alltaf að setja þetta lið í eitthvað bílstjórasæti. Þetta er einhver íslensk minnimáttarkennd sem brýst út, sérstaklega í umfjöllun hjá þessum stóru sérfræðingum til dæmis á RÚV,“ bætti Guðmundur við.

Ísland mætir Frakklandi í öðrum leik sínum í milliriðli III í dag. Leikurinn hefst klukkan 17:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×